Framhaldsskólanemar gagnrýna stjórnvöld

Samband íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, lýsir yfir vonbrigðum með að stjórnvöld hafi ekki birt skýra aðgerðaráætlun um hvernig kennslu í framhaldsskólum skuli háttað, nú þegar haustönn er um það bil að hefjast.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SÍF.

Þar segir að nemendur hafi leitað upplýsinga hjá sínum skólum en fátt sé um svör sem valdi þeim bæði vanlíða og kvíða. Stjórnvöld hafi ekki haft nokkurt samráð við fulltrúa nemenda þegar komi að ákvarðanatöku, hvorki í vor né nú, varðandi fjarnám, eins metra regluna, fyrirkomulag kennslu né nokkuð annað.

SÍF segist hafa skilning á ástandinu sem skapaðist í vor þegar faraldur og takmarkanir skullu á með skömmum fyrirvara.

„Annað gildir hinsvegar um stöðuna nú, þegar vitað var að allar líkur væru á að veiran skæða myndi skjóta upp kollinum aftur. Kalla nemendur því eftir aðgerðaráætlunum A, B og C frá stjórnvöldum þegar í stað sem skólastjórnendur og kennarar geta stuðst við, hvort sem kennt verður í skólabyggingum eða fjarkennslu,“ segir í tilkynningunni.

Þá vill SÍF sjá að nemendum verði leyft að velja hvort þeir mæti í tíma eða séu í fjarfundarbúnaði því þótt einhverjir fagni því að skólar haldist opnir með eins metra reglunni, að minnsta kosti enn um sinn, þá eru aðrir nemendur sem óttast smit í fjölmenni og mun því ekki mæta í skólann á meðan ástandið varir. Hættan er jafnvel sú að þeir muni aldrei mæta aftur. Nýjar tölur Hagstofunnar sýna er meira en tíunda hvert 19 ára ungmenni er hvorki í skóla né í vinnu og telur SÍF  að það hljóti að vera markmið stjórnvalda að lækka þá tölu með öllum ráðum og dáðum.

SÍF leggur áherslu á mikilvægi þess að skoðað verði vandlega með hvaða hætti stjórnvöld og skólakerfið brugðust við í vor og bera það saman við bæði einkunnir nemenda og brottfallstölur. Ekki þurfi að finna upp hjólið í hvert sinn sem Covid tilfellum fjölgar.

SÍF telur brýnt að sett verði aukið fjármagn í framhaldsskólastigið til að:

- tryggja að fjarkennsla verði eins og best verður á kosið og hægt verði að bjóða nemendum uppá val um skólasókn eða fjarkennslu.

- tryggja að iðn- og verknemar geti haldið áfram sínu námi námi og boðið verði upp á nýja möguleika fyrir þá sem misst hafa starfssamninga.

- mæta þörfum nemenda í minnihlutahópum, svo sem nemenda af erlendum uppruna, nemenda með fatlanir og nemenda með sértæka námsörðugleika.

- efla sálfræðiþjónustu innan framhaldsskólanna til muna.

- veita útskriftarnemum aukinn stuðning á lokametrunum.

- taka vel á móti nýnemum í nýju umhverfi á erfiðum tímum.

- tryggja að hver og einn framhaldsskóli sé undir það búinn að færa kennslu alfarið yfir í fjarnám með stuttum fyrirvara, komi upp aðstæður sem krefjast þess.

- rjúfa félagslega einangrun nemenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert