Hertar aðgerðir – öll skimuð tvisvar

Blaðamannafundur vegna skimana á landamærunum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundinum.
Blaðamannafundur vegna skimana á landamærunum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Öll þau sem koma til Íslands fara í skimun á landamærunum frá og með miðvikudeginum 19. ágúst. Síðan fer fólk í sóttkví og aðra sýnatöku að fjórum til sex dögum liðnum.

Þetta kom fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Safnahúsinu þar sem næstu skref í skimun á landamærunum vegna kórónuveirufaraldursins voru kynnt.

Um er að ræða fimmtu tillögu Þórólfs af níu vegna aðgerða á landamærunum sem hann kynnti í minnisblaði fyrr í vikunni.

Um umtalsverða breytingu er að ræða, frá miðjum júlí hafa farþegar frá Grænlandi, Færeyjum, Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi sloppið við skimun.

Þau sem komið hafa frá öðrum löndum en „þeim ör­uggu“ og ætluðu að dvelja hér í tíu daga eða leng­ur fóru í heim­komu­smit­gát og aðra sýna­töku eft­ir fjög­urra til sex daga dvöl.

Áhrifaríkasta leiðin að mati sóttvarnalæknis

Þessi ákvörðun er tekin í ljósi þess hvernig veiran hefur þróast á heimsvísu og hér innanlands. Tíðni smita vegna Covid-19 fer vaxandi í nágrannalöndum og um allan heim. Þá er enn verið að kljást við hópsýkingu sem upp hefur komið hér á landi án þess að vitað sé hvernig það afbrigði veirunnar barst inn í landið. Loks liggur fyrir að sóttvarnalæknir telur þessa leið áhrifaríkasta frá sóttvarnasjónarmiði,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Helsta breytingin sem leiðir af þessari ákvörðun er sú að allir farþegar, fyrir utan börn fædd 2005 og síðar, verða skimaðir við komu til landsins. Undanfarið hafa farþegar frá tilteknum ríkjum verið undanskildir. Í þeim ríkjum er faraldurinn að taka sig upp að nýju og erfitt hefur reynst að hafa eftirlit með því að farþegar hafi í raun dvalið 14 daga í viðkomandi landi.

Heimkomusmitgát lögð niður

Þá ber öllum að fara í aðra sýnatöku til þess að tryggja betur að smit greinist hjá þeim sem eru nýlega smitaðir. Hingað til hefur sú krafa einungis átt við Íslendinga og þá sem hér eru búsettir eða koma til lengri tíma dvalar.

Fyrstu 4-5 dagana þurfa viðkomandi að vera í sóttkví sem er öruggara og skýrara fyrirkomulag en svokölluð heimkomusmitgát sem mun þá heyra sögunni til. 

Gjald verður tekið fyrir sýnatöku á landamærum eins og framkvæmdin hefur verið hingað til en sýnataka númer tvö verður áfram að kostnaðarlausu. 

Þá verða reglur um forskráningu farþega hertar til þess að tryggja að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir áður en komið er til landsins.

Áfram byggt á trausti

Við höfuð hingað til byggt allar okkar aðgerðir á trausti, sagði Katrín Jakobsdóttir spurð að því hvernig eftirliti með ferðamönnum verði háttað til að tryggja að þeir haldi sig í sóttkví. Hún sagði það hafa skilað sér og nefndi sem dæmi að hlutfall þeirra sem hafa skilað sér í sýnatöku tvö hingað til væri „ótrúlega hátt“.

Áfram verður fylgst grannt með þróun mála í öðrum ríkjum og reglur endurmetnar með hliðsjón af henni. Hér eftir sem hingað til metur sóttvarnalæknir með reglubundnum hætti hvort lönd séu lágáhættusvæði og fari þá yfir í fyrirkomulag einfaldrar skimunar á landamærum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert