Skynsamlegast að grípa fast inn í

Blaðamannafundur vegna skimana á landamærunum. Katrín Jakobsdóttir og Áslaug Arna …
Blaðamannafundur vegna skimana á landamærunum. Katrín Jakobsdóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þegar við lögðumst yfir þá valkosti sem sóttvarnalæknir lagði fram til okkar, þá í raun beittum við bara þeirri aðferð að útiloka suma þeirra og aðra tókum við til nánari skoðunar. Því meira sem við lágum yfir þessu, ekki bara út frá sóttvarnasjónarmiðum heldur líka hagrænum sjónarmiðum og samfélagslegum sjónarmiðum þá var niðurstaða okkar sú að það væru skynsamlegast að grípa inn í tiltölulega fast og geta þá slakað á síðar,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fara þá leið sem sóttvarnalæknir telur áhrifamesta á landamærunum, þ.e. að allir sem hingað komi fari í tvær sýnatökur, eina við komuna og aðra eftir 4 til 6 daga með sóttkví á milli.

„Rökin eru auðvitað tvenns konar, í fyrsta lagi auðvitað þessi innanlandssmit, en það eru ekki þau ein og sér sem ráða þessari ákvörðun heldur í raun og veru þessi þróun sem við sjáum bara alls staðar í kring um okkur. Við erum að sjá faraldur í vexti. Það eru auðvitað stærstu rökin fyrir því að við metum það nauðsynlegt að herða sóttvarnaráðstafanir á landamærum til viðbótar við þær sóttvarnaaðgerðir sem við erum með hér innanlands. Hugsunin er líka sú auðvitað að við getum slakað á þeim takmörkunum hér innanlands, með það leiðarljós ávallt að samfélagið geti gengið áfram. Þá erum við að hugsa um skólana, íþróttirnar, menninguna og bara allt það sem okkur finnst mikilvægt og skiptir okkur máli sem samfélag að gera.“

Vonast til að einhver lönd verði fljótlega aftur græn

Ráðstafanir þessar taka gildi 19. ágúst og ljóst er að um verður að ræða þungt högg fyrir ferðaþjónustu sem stendur þegar veikum fótum, en á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar ítrekuðu Katrín og þeir ráðherrar sem með henni voru að allar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar byggðu á gögnum og væru í sífelldri endurskoðun.

„Það er auðvitað alltaf erfitt að segja til um tímasetningar, en við erum að byggja allar okkar ákvarðanir á gögnum, alltaf, og við munum vera með þetta í reglulegri endurskoðun. Vikulega munum við taka stöðuna og vonir mínar að sjálfsögðu standa til þess að við sjáum faraldurinn þróast með þeim hætti í einhverjum löndum að þau geti farið yfir á grænt svæði og farið þá í gegnum einfalda sýnatöku,“ segir Katrín, en með ákvörðuninni fara þau lönd sem þegar voru á grænum lista stjórnvalda, svo sem Danmörk, Noregur, Þýskaland, Grænland og Færeyjar, aftur á rauðan lista.

Stjórnvöld völdu þá leið sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir taldi áhrifamesta.
Stjórnvöld völdu þá leið sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir taldi áhrifamesta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín segir að smit séu í vexti hvert sem litið væri. „Eftir töluvert mörg samtöl við sóttvarnayfirvöld, þá fannst okkur það bara hreinar línur að gera þetta með þessum hætti. Það yrði þá bara auðveldara að slaka á þegar við sæjum árangur af þessum aðgerðum.“

Hvað er vandamálið?

Heimkomusmitgát, fyrir Íslendinga og aðra búsetta hérlendis, með tvöfaldri sýnatöku tók gildi 13. júlí síðastliðinn og hafa síðan tveir greinst með kórónuveiruna í seinni skimun. Þá hafa tiltölulega fáir ferðamenn sem hingað hafa komið sloppið smitaðir í gegnum sýnatöku á landamærunum. Því gætu einhverjir spurt sig hvort nauðsynlegt sé að grípa til þessara hörðu aðgerða.

„Þetta er ekki hátt hlutfall, það er alveg rétt, þegar maður horfir bara á hlutfallið þá hugsar maður bara hvað er vandamálið? En staðreyndin er sú að það er nægjanlegt að einn sleppi í gegn til þess að valda töluverðri hópsýkingu. Ég sagði hérna áðan mjög skýrt að ég ætla ekki að lofa því að enginn sleppi í gegn og samfélagið verði veirufrítt, það er ekki neitt sem neinn getur lofað, en við erum þá að lágmarka áhættuna með þessari aðgerð,“ segir Katrín.

Hún segir ríkisstjórnin hafa verið sammála um að fara þessa leið, en að að sjálfsögðu hafi þetta ekki verið auðveld ákvörðun. „Auðvitað ræddum við þetta vel, þetta er ekki ákvörðun sem maður hoppar í og segir gerum þetta bara. Við erum búin að skoða þetta út frá hagrænum sjónarmiðum, samfélagslegum og eiga ótrúlega mörg samtöl um þetta. En við stöndum algjörlega saman á bakvið þessa niðurstöðu.“

Útilokar ekki frekari efnahagslegar aðgerðir 

„Við þurfum auðvitað bara að taka stöðuna á því hver áhrifin verða,“ segir Katrín spurð hvort til standi að ríkisstjórnin kynni frekari efnahagslegar aðgerðir. „Við erum auðvitað að vonast til þess að þetta verði til þess að við þurfum ekki að raska lífi landsmanna meira. Við erum að hugsa t.d. um alla þá starfsemi sem þurfti að loka hér í vor, að þurfa ekki að fara í lokun, en það liggur auðvitað fyrir að þetta er þungt fyrir ferðaþjónustuna. Sumarið hefur verið þungt, sérstaklega hérna á höfuðborgarsvæðinu eins og mér skilst, því Íslendingar hafa ferðast út á land.“

„Það liggur alveg fyrir að það verður þungt og ég útiloka ekki að það komi fleiri aðgerðir til og svo eru aðrar aðgerðir sem halda áfram.“

mbl.is