Vonast til að samið verði við lögreglumenn

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dómsmálaráðherra bindur vonir við að samningar náist í kjaradeilu lögreglumanna við samninganefnd ríkisins. Landssamband lögreglumanna hefur verið samningslaust síðan í apríl í fyrra og er eina undirfélag BSRB sem enn er samningslaust. Næsti fundur í kjardadeilunni er fyrirhugaður 19. ágúst, en hlé var gert á viðræðunum vegna sumarleyfa.

„Ég bind auðvitað miklar vonir við að samningar náist við lögreglumenn og að þeir hljóti sömu kjör og aðrir hafa fengið samkvæmt lífskjarasamningnum. Vonandi verður hægt að ná saman.“ Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í samtali mbl.is í dag. Lögreglumenn hafa verið samningslausir í um sextán mánuði en kjarasamningur þeirra rann út í apríl 2019.

Engin viðbrögð við úrlausnartillögum

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, sagði í frétt á vef BSRB um daginn að engin viðbrögð höfðu fengist frá samninganefnd ríkisins við tillögum sambandsins um lausn í deilunni.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að semja verði tafarlaust við lögreglumenn. Ríkið eigi að sjá sóma sinn í því að semja við lögreglumenn svo veita megi þeim sömu kjör og öðrum hafi verið veitt. Lögreglumenn séu framlínustétt sem oft hafi þurft að leggja heilsu sína að veði við störf sín, ekki síst vegna kórónuveirufaraldursins.

mbl.is