Útvarp tifar létt um máða steina

Colorbox

Útvarpið hefur aldrei staðið frammi fyrir meiri samkeppni sem miðill, eigi að síður hefur gróskan líklega aldrei verið meiri, alltént ef marka má fjölda útvarpsstöðva á Íslandi. Í úttekt Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins kemur meðal annars fram að þetta helgist ekki síst af því hversu þægilegur og persónulegur miðill útvarpið sé, auk þess sem það á gott með að bregðast hratt við þegar vá ber að dyrum eða ná þarf eyrum almennings af öðrum ástæðum. 

Sigurður Þorri Gunnarsson.
Sigurður Þorri Gunnarsson. Ljósmynd/K100


Sigurður Þorri Gunnarsson, dagskrárstjóri K100, segir skýringuna öðru fremur felast í eðli miðilsins. „Útvarpið er persónulegasti miðill sem til er; hlustendum líður gjarnan eins og þeir séu aðilar að samtalinu sem á sér stað og að þeir sem eru að tala séu jafnvel staddir heima í stofu hjá þeim. Það er meiri hópupplifun að horfa á sjónvarp.“

Sigurður er raunar þess sinnis að hafi einhvern tíma verið hægt að tala um gullöld útvarpsins þá sé það núna. „Hefðbundið línulegt útvarp hefur haldið sínu og svo hefur hlaðvarpið bæst við en það er auðvitað ekkert annað en ólínulegt útvarp. Í dag getur hver sem er gert útvarpsþátt heima hjá sér og þjónað þrengri hópum en hægt er að gera í línulegri dagskrá, þar sem óhjákvæmilega þarf að taka mið af markaðnum. Þess utan eru hljóðbækur, sem njóta sívaxandi vinsælda, ekkert annað en útvarp.“

Anna Marsibil Clausen.
Anna Marsibil Clausen.


Hlaðvarp styður við útvarp

Hlaðvarpið er í tísku en að sögn Önnu Marsibilar Clausen, dagskrárgerðarkonu á Rás 1, mun það ekki ganga af útvarpinu dauðu. Ekkert frekar en efnisveitur á borð við Netflix hafi drepið línulega dagskrá í sjónvarpi. „Þetta styður klárlega hvort við annað, á því leikur enginn vafi, og hlaðvarpsstjörnur eins og Joe Rogan hafa dregið glænýjan hóp að miðlinum.“

Að áliti Önnu Marsibilar er styrkur útvarpsins öðru fremur fólginn í þrennu.

Í fyrsta lagi hvað það er persónulegur miðill. „Persónulegri miðill er ekki til, að mínu mati. Þegar við hlustum á útvarp líður okkur gjarnan eins og að við séum að hlusta á vini okkar tala saman; þeir gætu þess vegna verið í sófanum við hliðina á okkur.“

Í öðru lagi hvað útvarpið er þægilegur miðill og einfaldur í notkun, sem gerir okkur mjög auðveldlega kleift að gera eitthvað allt annað á meðan við erum að hlusta; keyra bíl, vaska upp og annað þess háttar. 

Þriðja atriðið sem Anna Marsibil nefnir er hversu sjónrænn miðill útvarpið er. „Það hefur allt annars konar aðgengi að ímyndunaraflinu en sjónvarpið og blöðin. Miklar lýsingar geta kallað fram heljarstóra mynd í huga hlustenda.“

Dr. Arnar Eggert Thoroddsen.
Dr. Arnar Eggert Thoroddsen.


Eins og notalegur lækur

Dr. Arnar Eggert Thoroddsen, tónlistarfræðingur og aðjunkt við félagsvísindadeild HÍ, segir að útvarp sé í huga margra þægilegur bakgrunnur og hverfist meira um hljóð en innihald. „Útvarpið er eins og notalegur lækur sem streymir áreynslulaust fram.“

Hann segir upplifun fólks af útvarpi þó geta verið mjög ólíka. „Þegar ég var við nám í Skotlandi spurði prófessorinn, Simon Frith, okkur nemendur sína hvað við hugsuðum þegar við heyrðum minnst á útvarp. Við Evrópubúarnir áttum flest góðar minningar, ekki síst úr barnæsku, meðan Suður-Ameríkumennirnir áttu í allt annars konar tilfinningasambandi við útvarpið. Þegar hlustað var á það var eitthvað alvarlegt á seyði; herinn kominn og jafnvel búið að setja útgöngubann. Mörg þeirra tengdu útvarpið við voðalega hluti.“

Valgerður Jóhannsdóttir.
Valgerður Jóhannsdóttir. Haraldur Jónasson/Hari


Getur brugðist strax við

Fréttaflutningur í útvarpi stendur býsna styrkum fótum, jafnvel þótt samkeppnin hafi aldrei verið meiri. Þetta er skoðun Valgerðar Jóhannsdóttur, sem hefur umsjón með meistaranámi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.

„Útvarpið hefur alltaf haft þá sérstöðu að það getur brugðist strax við. Um leið og stórtíðindi verða, náttúruhamfarir eða annað, þá er hægt að ganga út frá því að umfjöllun sé hafin í útvarpinu,“ segir hún.

Auðvitað á þetta einnig við um sjónvarp og vefmiðla en það sem útvarpið hefur fram yfir þá er að hægt er að gera sitthvað annað á meðan tekið er á móti upplýsingum. Til dæmis er hægt að kveikja á útvarpinu meðan maður er undir stýri, þegar útilokað er að horfa á sjónvarpið eða bruna um netið. „Þegar hamfarir eiga sér stað eða önnur stórkostleg tíðindi hefur fólk enn þá tilhneigingu til að leita á náðir útvarpsins, ekki síst eldra fólkið,“ segir Valgerður.

Nánar er fjallað um stöðu útvarpsins í nútíð og framtíð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »