Ekki tilefni til hertari aðgerða

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er tilefni til að herða aðgerðir vegna útbreiðslu kórónuveirunnar innanlands að mati Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Þórólfur segir að af útbreiðslu í öllum landshlutum sé ljóst að veiran hafi náð að dreifa sér nokkuð áður en hún skaut upp kollinum í lok júlí og því geti tekið lengri tíma að sjá árangur af þeim aðgerðum sem gripið var til í síðasta mánuði.

Áður hafði verið talað um að allt að tvær vikur gæti tekið að sjá árangur af þeim. „Ég býst alveg eins við því að núna á næstu dögum sjáum við einhver tilfelli á hverjum degi, en ég ætla rétt að vona að við förum ekki að sjá einhverjar stærri hópsýkingar.“

Allt af sama stofni

Átta smit greindust innanlands í gær og sjö daginn þar áður en smitin greindust á höfuðborgarsvæðinu, Austurlandi og Suðurnesjum. Af hinum 15 greindu voru 11 í sóttkví og þau smit rakin til þeirrar hópsýkingar sem geisað hefur síðustu vikur. Erfiðara hefur reynst að rekja hin smitin, en Þórólfur segir þau öll sömu gerðar og þau sem hafi komið upp að undanförnu þótt ekki séu tengsl við hina smituðu.

Þórólfur segir að fylgst sé með raðgreiningu smita á landamærum til að gá hvort aðrar tegundir veirunnar séu að skjóta upp kollinum hér á landi. Aðrar tegundir veirunnar hafi greinst á landamærum en ekki hafi orðið vart við þær veirutegundir innanlands.

Á föstudag birtist ný spá vísindamanna við Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítalans þar sem gert er ráð fyrir að smitum fækki hægt og bítandi næstu vikur. Þórólfur segir að lítið hafi komið honum á óvart í spánni. „Þetta er nokkuð samsvarandi því mati sem ég hef lagt á faraldurinn. Þau eru að spá því að þetta verði viðvarandi og það muni greinast nokkur tilfelli á hverjum degi eins og staðan er núna.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert