Færi út með þrjár grímur

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir verður meðal keppenda á heimsleikunum í crossfit …
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir verður meðal keppenda á heimsleikunum í crossfit sem fara að hluta til fram á netinu. Kristinn Magnússon

Rétt fyrir síðustu helgi tilkynnti CrossFit að heimsleikarnir í íþróttinni færu fram að hluta á netinu í ár. Munu 30 hraustustu konur og 30 hraustustu karlar heims keppa í sínu heimalandi um að vera í hópi þeirra fimm efstu í hvorum flokki sem er síðan boðið til Kaliforníu í Bandaríkjunum í lokakeppnina.

„Miðað við ástandið er þetta besta útkoman,“ segir Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, oftast kölluð Sara, um nýja fyrirkomulagið. „Ég viðurkenni að ég var ekki sérlega spennt fyrir því að ferðast til Bandaríkjanna í þessu hræðilega ástandi. Kalifornía búin að loka aftur en við samt að fara út. Maður var bara farinn að hugsa, „Hvað gerist ef ég fæ vírusinn og er bara föst þarna?““

Sara er ein tveggja íslenskra kvenna sem er í hópi þeirra 30 sem fengu keppnisrétt á leikunum. Auk hennar verður Katrín Tanja Davíðsdóttir einnig meðal keppenda, ef marka má heimasíðu heimsleikanna í crossfit, en hún er búsett í Bandaríkjunum og keppir því þar. Þá tryggði Annie Mist Þórisdóttir sér einnig þátttökurétt á mótinu en verður ekki með því hún eignaðist sitt fyrsta barn á dögunum.

Þyrftu að sæta sóttkví

Dagsetningar fyrir keppnina voru tilkynntar á fimmtudag. Keppnin hefst föstudaginn 18. september á netinu en lokakeppnin mun fara fram vikuna 19. til 25. september. Sara segir keppendur hafa fengið að kjósa um tímasetningu bæði netkeppninnar og hinna eiginlegu heimsleika í Kaliforníu. Áætlað er að netkeppnin, þar sem keppendur streyma myndböndum af sér að gera æfingarnar sem gera á í keppninni, taki þrjá daga.

Þeim, sem eru ekki bandarískir ríkisborgarar eða með dvalarleyfi þar í landi, er meinað að fara til Bandaríkjanna eins og staðan er í dag. Sara segir að keppendurnir muni fá inngöngu í landið á sérstakri vegbréfsáritun fyrir íþróttamenn sem CrossFit hefur sótt um. Þeir þurfi þó að sæta tveggja vikna sóttkví við komuna þangað og því þyrfti Sara að komast til Bandaríkjanna tímanlega komist hún í lokakeppnina.

Björgvin Karl Guðmundsson lenti í þriðja sæti á heimsleikunum í …
Björgvin Karl Guðmundsson lenti í þriðja sæti á heimsleikunum í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Ekki fyrsta netmótið

Björgvin Karl Guðmundsson verður eini íslenski keppandinn í karlaflokki. Honum líst ágætlega á fyrirkomulagið. „Það var verið að pæla í að hafa keppnina án áhorfenda á búgarði Dave Castros í Kalifroníu þar sem allir yrðu með,“ segir Björgvin. „En það kom fljótlega í ljós að það voru ekkert allir að fara að komast þangað og svo yrði erfitt að fara eftir öllum reglunum í sambandi við Covid.“

Rouge Invitational-mótið var haldið með svipuðu sniði í júní og því eru heimsleikarnir ekki þeir fyrstu til fara fram í gegnum netheima. Bæði Björgvin og Sara tóku þátt í því móti. „Svo lengi sem staðið verður vel að öllu og allir fari eftir öllum reglum og noti rétta búnaðinn þá ætti þetta að ganga upp,“ segir Björgvin.

„Þetta veltur svolítið á því hvort CrossFit sendi keppendum allan búnað eða hvort þú getir notað þinn eigin búnað. Það þarf að vera svolítið á hreinu, þyngdirnar og þetta allt,“ segir Björgvin en einhverjir keppendur eru vanir að nota lóð mæld í kílóum, aðrir í pundum.

„Það er spurning hversu nákvæmt þetta verður því þetta veltur oft á einhverjum sekúndubrotum á milli manna. En ég hef fulla trú á þessu og þetta er spennandi.“

Mögulega ekki þau bestu efst

Sérstakur dómari frá CrossFit mun sjá til þess að hver og einn keppandi muni framkvæma æfingarnar rétt. „Ég veit ekki hvort hann verður íslenskur en okkur verður úthlutað dómara,“ segir Sara.

„Það var þannig á Rouge-mótinu,“ segir Björgvin. „Þá þurfti ég líka að hafa „operation manager“ til að vera á bak við myndavélina og sjá til þess að þetta gengi smurt fyrir sig.“
Í fyrra voru leikarnir með breyttu sniði frá því sem var áður. Var keppendum fækkað mun fyrr í keppninni en fólk átti að venjast og margir sterkir keppendur duttu snemma úr leik. Vildu einhverjir þeirra meina að aðeins hefðu íþróttamennirnir verið prófaðir í hluta þeirra tegunda æfinga sem crossfit byggir á og því ekki þeir sterkustu sem fóru áfram í 10 manna úrslit til að mynda.

Sara viðurkennir að hún sé smeyk við að svipað gæti verið uppi á teningnum í ár. „Fimm efstu. Þetta er rosalega mikill skurður. Þú mátt ekki gera ein mistök og þá ertu farin. En þau hafa alla vega afsökun þetta árið ef þau ná ekki réttu aðilunum inn á heimsleikana. Kórónuveiran er ekki að gera þeim auðvelt fyrir að geta prófað fólk í öllu.“

Nánar er rætt við Ragnheiði Söru og Björgvin Karl í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert