Eðlilegt að fólk spyrji spurninga

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að í hvert sinn sem við takmörkum frelsi fólks þá staldri menn við og spyrji þessara spurninga,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is.

Hertar aðgerðir við landamæri taka gildi á morgun og hafa flokksystkin Bjarna, Sigríður Andersen og Birgir Ármannsson sett spurningamerki við aðgerðir stjórnvalda í sóttvarnamálum. Sigríður hefur sagt að það þurfi að færa ríkari rök fyrir því að farið sé í svona harðar aðgerðir á landamærum.

„Meginrök á bak við þær aðgerðir sem við erum að beita núna til þess að takmarka frekari útbreiðslu veirunnar eru á sóttvarnalegum grunni og byggðar á reynslu og upplýsingum sem við höfum verið að safna undanfarna mánuði,“ segir Bjarni.

Í þessu tilviki sé verið að verja hagsmuni heildarinnar með því að ganga inn á frelsi einstaklingsins til að ferðast.

Ekki ágreingur um sóttvarnir

Ráðherra segir að ekki sé óeining innan þingflokksins um aðgerðir stjórnvalda.

„Mér finnst ekkert óeðlilegt við það að fólk spyrji spurninga. Þar á meðal um atriði sem snúa að persónufrelsinu. Þetta eru bara einfaldlega ákveðnin grundvallaratriði sem við þurfum sífellt að minna okkur á að fórna ekki,“ segir Bjarni.

Einnig hafi umræðan innan ríkisstjórnarinnar þroskast, og að meðvitund ríki um að ekki sé verið að taka endanlegar ákvarðanir þegar kemur að sóttvarnaaðgerðum.

„Mér finnst að við höfum safnað á undanförnum mánuðum reynslu og þekkingu. Okkar embættismenn hafi sömuleiðis gert það. Og við séum smám saman að taka betur upplýstar ákvarðanir, en það breytir því ekki að við erum enn að taka ákvarðanir inn í gríðarlega mikla óvissu.“

Bjarni segir að ekki sé ágreiningur um sóttvarnarökin að baki aðgerðanna, en að það sé eðlilegt að fólk spyrji sig hversu langt eigi að ganga í þágu sóttvarna áður en farið sé að fórna öðrum mikilvægum hagsmunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert