Veiðigjöld Samherja í Namibíu lægri en á Íslandi

Veiðigjöld í Namibíu eru lægra hlutfall af verðmæti afla en veiðigjöld sem Samherji greiðir á Íslandi. Frá árunum 2012 til ársins 2017 voru veiðigjöld í Namibíu um 1% af aflaverðmæti, en hlutfallið var síðan fest með lögum í 10% árið 2018. 

Skýrsla atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi birtist í dag, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, og fleiri þingmenn óskuðu þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flytji Alþingi skýrslu um samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi á grundvelli upplýsinga frá Fiskistofu og þeim skjölum sem RÚV fjallaði um í fréttaskýringaþættinum Kveik. 

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann skýrsluna, en í inngangi hennar kemur fram að þær ásakanir sem fram komu í umfjöllun Kveiks um greiðslur til þeirra sem úthlutuðu veiðirétti í Namibíu eru til rannsóknar hjá yfirvöldum á Íslandi og í Namibíu. Meðan beðið er eftir niðurstöðu rannsókna er vart við hæfi að taka afstöðu til kæruefnanna og er því ekki fjallað um þau í skýrslunni eftir því sem fram kemur í inngangi hennar. Af þeim ástæðum var ekki hægt að svara skýrslubeiðninni eins og hún var sett fram og er því í skýrslunni eingöngu stuðst við opinberar upplýsingar. 

Í skýrslunni kemur fram að hlutdeild veiðigjalda í meðalverði aflategunda á Íslandi hafi verið á bilinu 13,5% til 5,1% fyrir þorsk, 10,2% til 4,3% fyrir karfa, 15,9% til 4,6% fyrir síld og 17,6% til 6,2% fyrir loðnu. Vegið meðaltal hlutdeildar veiðigjalda í meðalverði aflategunda á árunum 2012 til 2018 var því 12,4% árið 2012, 15,1% árið 2013, 10,0% árið 2014, 10,9% árið 2015, 5,1% árið 2016, 9,6% árið 2017 og 8,4% árið 2018. 

Hlutfall veiðigjalda í meðalverði á hrossamakríl í Namibíu árin 2012 til 2018 var nokkuð lægra. Þannig var það 0,9% árið 2012, 0,8% árið 2013, 1,0% árið 2014, 1,3% árið 2015, 1,0% árið 2016, 1,2% árið 2017 og loks 10,0% árið 2018 eftir að veiðigjald var fest með lögum í 10%. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert