Dúxaði „eiginlega óvart“

Pétur Arnar Úlfarsson var dúx Háskólabrúar með 9,74 í meðaleinkunn.
Pétur Arnar Úlfarsson var dúx Háskólabrúar með 9,74 í meðaleinkunn. Ljósmynd/Aðsend

Pétur Arnar Úlfarsson brautskráðist á dögunum af Háskólabrú Keilis með 9,74 í meðaleinkunn. Pétur var dúx Háskólabrúarinnar, en meðaleinkunn hans er hæsta einkunn í sögu deildarinnar. 

Pétur lauk náminu á tveimur árum og var í fullu starfi samhliða því. Hann segist ekki hafa stefnt að því að dúxa námið fyrirfram. 

„Þetta gerðist eiginlega óvart,“ segir Pétur. „Ég hugsaði með mér þegar ég byrjaði, af því að ég var í fullri vinnu og bjó erlendis, að ég þyrfti nú að byrja af fullum krafti til að lenda ekki eftir á. Svo ég tók fyrstu áfangana alveg með trompi og svo eftir það hugsaði ég með mér að ég mætti nú ekki slaka á úr því og hélt bara áfram.“

Pétur segist ekki stefna á áframhaldandi nám í bili. 

„Ég er ekki að stefna á það alveg akkúrat núna. Mig langar það, en af því að ég bý á Akureyri eru svolítið takmarkaðir valkostir. Mig langar í einhverskonar verkfræði en það er ekkert í boði hér og ekkert heldur í fjarnámi svo ég þyrfti þá að flytja til Reykjavíkur. Það gæti verið að maður geri það einhvern tímann en það er náttúrulega óvissuástand núna eins og hjá öllum,“ segir Pétur. 

Engin galdur á bakvið árangurinn 

Pétur segir að lykilinn að góðum námsárangri sé líklegast að hafa áhuga á náminu og að byrja snemma að læra. 

„Það er svosem engin galdur á bakvið þetta, ég bara lærði alveg rosalega mikið. Ég fór líka í þetta nám ekki vitandi hvað ég myndi gera í framhaldinu þannig að ég ákvað bara að ég ætlaði að fá eins mikið út úr því og ég mögulega gæti. Ég var alltaf með það hugarfar að námið væri ekki eitthvað sem ég þurfti til að komast á næsta sig heldur var ég í því bara af því að mig langaði að læra. Ætli það sé ekki lykillinn, að langa að læra það sem þú ert að læra, hvort sem það er nytsamlegt eða ekki,“ segir Pétur. 

Pétur segist hafa vitað fyrir útskrift að hann hafi staðið sig vel í náminu, en að hann hefði þó ekki grunað að hann myndi hljóta hæstu meðaleinkunn í sögu Háskólabrúarinnar.  

„Ég vissi að ég hefði aldrei fengið einkunn undir 9,5 og að meðaleinkunnin yrði því líklega góð. En ég vissi svosem ekki að ég myndi dúxa, hvað þá fá hæstu einkunn frá upphafi. Það kom skemmtilega á óvart,“ segir Pétur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert