Bjartsýnn á að við séum að ná utan um faraldurinn

„Þetta er allt sama veiran sem við erum að fást …
„Þetta er allt sama veiran sem við erum að fást við. Við erum að sjá að flestir af þeim sem eru að greinast séu í sóttkví og það bendir til þess að við séum að ná utan um þetta svo ég er bara nokkuð bjartsýnn á það,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. mbl.is/Árni Sæberg

Þórólfur Guðnason segir að staðan hérlendis hvað kórónuveirufaraldurinn varðar líti nokkuð vel út þótt einhver smit hafi greinst á síðustu dögum. Flestir sem greinst hafa að undanförnu hafa verið í sóttkví og bendi það til þess að Íslendingar séu að ná tökum á faraldrinum. Þórólfur ætlar sér áfram að vera í fararbroddi hvað varðar tillögur um aðgerðir vegna kórónuveirunnar. 

Þórólfur og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, munu mæta á fund samráðsvettvangs stjórnvalda sem hefst á morgun. Þórólfur segist þó ekki ætla að hafa sig mikið í frammi þar. Ýmsir aðilar sem kallaðir hafa verið til af stjórnvöldum taka þátt í fundum á umræddum vettvangi. 

„Ég held að það sé ágætt að leyfa öðrum að tjá sig og koma með sínar skoðanir. Við verðum þarna og hlustum á það sem fólk hefur að segja,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is. 

Þarf að vega og meta heildarhagsmuni

Þórólfur sagði í Kastljósi í gær að það væri stjórnvalda að ákveða aðgerðir til framtíðar, ekki sóttvarnalæknis. Spurður hvort hann verði ekki áfram í fararbroddi hvað varðar tillögur um aðgerðir segir Þórólfur: 

„Jú. Mitt hlutverk er að benda á hvað ég tel best að gera út frá sóttvarnasjónarmiðum og koma með tillögur um það en á þessum tímapunkti í aðgerðum þarf að vega og meta heildarhagsmuni hérna innanlands. Það er stjórnvalda að gera það en ég mun áfram koma mínum sóttvarnasjónarmiðum að.“

Fjögur innanlandssmit greindust í gær, þrjú daginn þar á undan og tvö á sunnudag. Spurður hvernig Ísland standi í faraldrinum segir Þórólfur:

„Mér finnst þetta bara líta nokkuð vel út [...]. Þetta er allt sama veiran sem við erum að fást við. Við erum að sjá að flestir af þeim sem eru að greinast séu í sóttkví og það bendir til þess að við séum að ná utan um þetta svo ég er bara nokkuð bjartsýnn á það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert