Aron Þórður Albertsson Þorgerður Anna Gunnarsdóttir
„Algjör lokun landsins var auðvitað mikil vonbrigði. Að fá enga ferðamenn til landsins næstu vikur og mánuði er gríðarlegt högg,“ segir Haraldur Teitsson, framkvæmdastjóri hópferðaþjónustu Teits Jónassonar.
Nýjar reglur tóku gildi á landamærunum á miðnætti í nótt og þurfa nú allir þeir sem koma til landsins að sæta fjögurra til sex daga sóttkví. Þá þurfa sömu einstaklingar að fara í sýnatöku við komuna og að sóttkví lokinni.
Að sögn Haraldar verða næstu mánuðir erfiðir. Tekjur munu skreppa saman á meðan fastur kostnaður helst að mestu óbreyttur. „Við vorum búin að flytja inn nokkur þúsund ferðamenn hingað til landsins. Enginn af þeim hafði reynst smitaður þannig að lokunin er gríðarleg vonbrigði. Það var búið að taka tíma að byggja upp traust. Júní og júlí voru rólegir en þetta var komið á skrið í ágúst. September leit síðan vel út. Ég skil alveg aðgerðirnar en þetta er mjög hart,“ segir Haraldur og bætir við að góð skuldastaða fyrirtækisins komi sér vel. „Við erum gamalgróið fyrirtæki sem hefur ekki verið í skuldasöfnun. Á sama tíma eru önnur félög í eigu sjóða sem dæla inn peningum og það mun reynast erfið samkeppni. Við gerum einhverjar breytingar og náum að halda megninu af fólkinu, en maður er auðvitað uggandi.“
„Þetta er svolítið sorglegt því hlutirnir hjá ansi mörgum fyrirtækjum voru farnir að þróast á jákvæðan hátt og svo var því kippt í burtu með engum fyrirvara. Það sem er kannski sorglegast er það að það hafi ekki átt sér stað neitt samtal,“ segir Ásberg Jónsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Nordic Visitor.