„Þetta er ótrúlega lúmskt“

Árni Björn ásamt eiginkonu sinni, Guðrúnu Ósk, og börnunum þeirra …
Árni Björn ásamt eiginkonu sinni, Guðrúnu Ósk, og börnunum þeirra tveimur. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef það bara nokkuð gott eins og er. Ég er betri í dag en í gær,“ segir Árni Björn Kristjánsson, íþróttamaður og fjölskyldufaðir, í samtali við mbl.is. Árni Björn greindist með kórónuveiruna síðastliðinn sunnudag, en ekki liggur fyrir hvaðan smitið kemur.

Árni Björn varð veikur á föstudaginn en kveðst alls ekki hafa búist við því að vera með kórónuveiruna, og grínaðist raunar með það. „Ég bjóst engan veginn við því, ég var meira að segja bara eitthvað að grínast á Instagram hvort þetta væri covid eða „man flu“,“ segir Árni Björn, en hann hefur leyft fylgjendum sínum að fylgjast með ferlinu á Instagram.

Eins og áður segir liggur ekki fyrir hvernig Árni Björn smitaðist, en fljótlega eftir að hann greindist fór faðir hans í próf og reyndist einnig jákvæður. Árni Björn segir föður sinn hafa verið slappan í sömu viku og í raun sé ekki vitað hvor hafi smitað hvorn, né heldur hafi nokkur hugmynd um hvaðan upprunalega smitið kom. Þá hafa nokkrir aðrir í kring um Árna Björn og föður hans reynst smitaðir í kjölfarið.

Með nýfætt barn og annað langveikt

Árni Björn og eiginkona hans, Guðrún Ósk Maríasdóttir, eignuðust annað barn sitt fyrir rúmlega tveimur vikum og eiga langveika dóttur fyrir.

„Við erum með tveggja vikna gamalt barn þegar ég verð veikur, og með langveika stelpu. Þess vegna fékk ég að fara í próf svona fljótt og af því ég gat ekki tekið þá áhættu að dóttir mín eða sonur myndu smitast var ég sendur á sóttvarnahótelið,“ segir Árni Björn.

Guðrún Ósk var ein heima með börnin í tvo sólarhringa, …
Guðrún Ósk var ein heima með börnin í tvo sólarhringa, en er nú komin með móður sína til aðstoðar í sóttkvínni. Ljósmynd/Aðsend

Guðrún Ósk hafi verið ein með börnin í tvo sólarhringa á meðan beðið var eftir niðurstöðu úr sýnatöku frá henni og dóttur þeirra. „Svo kom í ljós að þær voru báðar neikvæðar, þá fór tengdamamma mín til þeirra svo þau eru núna fjögur saman í sóttkví. Hún fór bara til að aðstoða hana af því við máttum ekki fá neina liðveislu eða þjónustu inn á heimilið.“

Árni Björn var á sóttvarnahótelinu í tvo sólarhringa. „Það var mjög skrýtið og ég var mjög feginn að sleppa út ef ég á að segja eins og er,“ segir Árni Björn, en þegar faðir hans reyndist einnig með kórónuveiruna gat hann farið til hans og eru þeir nú saman í einangrun. Í raun var það smá „heppni“, hann er reyndar nýrnaþegi og er á ónæmisbælandi lyfjum svo við vorum alltaf mjög stressuð að hann myndi fá covid, en hann ber sig ágætlega eins og er allavega.

Pirringur í höndum og fótum

Þetta er svona fyrsti dagurinn núna sem mér líður næstum því eins og mér á að líða, nema ég finn eiginlega ekkert bragð,“ segir Árni Björn um eigin líðan. Auk þess hafi hann fundið fyrir skrýtinni tilfinningu í höndum og fótum og fengið staðfestingu á því í facebookhóp fyrir þá sem hafa smitast af kórónuveirunni á Íslandi að það væri algengt einkenni.

„Ég hafði ekki heyrt um það og ákvað að spyrja, en það voru mjög margir sem svöruðu og sögðust ennþá finna fyrir þessu jafnvel mörgum mánuðum seinna, svo ég er pínu stressaður fyrir því. Ég fékk það ráð að taka magnesíum, bæði töflur og nota sprey, og það hjálpaði mér að sofna í gær. Ég er búinn að eiga svo erfitt með að sofna á nóttunni út af því. Ég finn aðeins fyrir því og bragðleysi, en þess fyrir utan líður mér ekkert eins og ég sé veikur, fyrir utan pínulítinn hósta.“

Aðspurður segist Árni Björn hafa verið að gera mest lítið síðan hann lenti í einangrun. „Þetta er ógeðslega skrýtið ástand. Maður getur ekki bara verið að hanga allan daginn og glápa á Netflix, þú færð mjög fljótt leið á því, en svo er hausinn svo mikið á flugi að maður á mjög erfitt með að einbeita sér eitthvað eða reyna að vinna.“

Hálftíma göngutúr á svölunum

Hann hafi hins vegar fengið góð ráð í facebookhópnum um að koma sér upp einhvers konar rútínu. „Ég er að vinna í því núna að vakna á skikkanlegum tíma og fara að sofa á skikkanlegum tíma og setja upp einhvers konar dagrútínu. Ég ætla að reyna að hreyfa mig eitthvað, en ég má náttúrlega ekki gera mikið eins og er. Það er erfiðasti parturinn fyrir mig, enda vanur að æfa marga tíma á dag. Ég fór í 30 mínútna göngutúr á svölunum í dag.“

Árni Björn æfir crossfit af kappi og er jafnframt stöðvarstjóri …
Árni Björn æfir crossfit af kappi og er jafnframt stöðvarstjóri CrossFit XY í Garðabæ. Ljósmynd/Aðsend

 „Svo erum við pabbi báðir bara í fullum samskiptum við rakningarteymið, og núna erum við að rekja tvær vikur aftur í tímann allar búðarferðir, allt fólk sem við höfum hitt og bara allt til að reyna að komast að því hvaðan uppruninn er. Þeir virðast vilja komast að því hvaðan þetta kemur,“ segir Árni Björn.

Haldi áfram að passa sig

Að lokum vill Árni Björn hvetja fólk til að halda áfram að passa sig. „Þetta er ótrúlega lúmskt, maður veit ekkert hvaðan þetta kemur eða neitt. Ég var heppinn að það þurfti enginn uppi í crossfitstöð að fara í sóttkví. Bæði ég og systir mín fórum á æfingu daginn áður en við erum með einkenni, og það er tíminn sem þau fara til baka til að láta fólk í sóttkví, en af því við vorum með tvo metra og allt sprittað þurfti enginn að fara í sóttkví. Ég myndi bara vilja hvetja alla til að huga mjög vel að því, annars væru þetta mjög margir sem hefðu þurft að fara.“

mbl.is