Ferlið eins fyrir alla

Víðir segir ríkisstjórnin hafa fylgt ströngustu reglum frá upphafi faraldursins.
Víðir segir ríkisstjórnin hafa fylgt ströngustu reglum frá upphafi faraldursins. Ljósmynd/Lögreglan

„Við bjuggum okkur til verklag snemma í ferlinu sem er eins fyrir alla. Það er ekkert öðruvísi með ríkisstjórnina, við lítum bara á þetta sem hvern annan vinnustað, en flækjustigið í þessu er auðvitað þegar þetta eru framlínustarfsfólk. Við höfum haft mikla reynslu með heilbrigðisstarfsfólk og lögreglumenn, svo verklagið er orðið nokkuð slípað,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Níu af ellefu ráðherrum í ríkisstjórn Íslands þurfa að sæta tvöfaldri sýnatöku og smitgát vegna smita sem greinst hafa í tengslum við Hótel Rangá þar sem ríkisstjórnin, utan tveggja ráðherra, snæddi á sumarfundi síðasta þriðjudag.

Ríkisstjórnin tilheyrir svokölluðum ytri hring mögulegs smithóps og eru talin minna líkleg til að hafa verið útsett fyrir smiti. Aðrir sem eru í þessum hóp fara í eina skimun og úrvinnslusóttkví, en líkt og aðrir framlínustarfsmenn fara ráðherrar í tvöfalda sýnatöku og smitgát þegar þeir tilheyra þessum hópi.

Víðir segir ríkisstjórnin hafa fylgt ströngustu reglum frá upphafi faraldursins, sem feli meðal annars í sér sprittun allra snertiflata fyrir ríkisstjórnarfundi, að ráðherrar sitji með rúmlega tvo metra sín á milli og spritti hendur sínar fyrir og eftir fundi. „Ég held þetta séu bara sömu reglur og allir aðrir eru að nota fyrir,“ segir Víðir.

Niðurstaða úr raðgreiningu vegna smitanna sem komu upp á Hótel Rangá liggur ekki endanlega fyrir, en samkvæmt fyrstu niðurstöðum er talið að um sé að ræða sömu gerð veirunnar og hefur verið að valda hópsmiti í þessari annarri bylgju kórónuveirufaraldursins hérlendis.

Ráðherrar í hundrað manna hópi

Ráðherrarnir níu fara í skimun síðdegis í dag og segir Víðir þá ekki fá neinar sérmeðferð. „Það er bara alveg eins og hjá öllum öðrum, þau eru skráð inn í kerfið og fá úthlutaðan tíma. Við erum yfirleitt með þessar skimanir á nokkrum stöðum þannig að þau mæta bara þangað sem þeim er sagt og hjá þeir mer tekið sýni eins og hjá hverjum sem er.“

Skimanir þessar, meðal fólks sem ekki tengist smiti nægilega til að þurfa að fara í sóttkví, hafa verið framkvæmdar síðan önnur bylgja faraldursins hófst og minnir Víði að tveir hafi greinst með kórónuveiruna í þessum skimunum, sem fara fram í stamstarfi við Íslenska erfðagreiningu og fjarri heilsugæslustöðvunum.

„Við erum að gera þetta utan heilsugæslustöðvanna því við blöndum ekki saman þeim sem eru með einkenni og þeim sem eru í þessum skimunum. Við notum þá aðstöðu sem er hentugust hverju sinni. Þetta eru margir tugir, ef ekki hundrað manns sem eru að fara í þessa skimun í dag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert