Forsetahjónin og Steindi hlaupa til góðs

Steindi og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri verða meðal þátttakenda í …
Steindi og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri verða meðal þátttakenda í góðgerðarhlaupinu. Ljósmynd/Aðsend

Í stað Reykjavíkurmaraþonsins, sem átti að fara fram á morgun en var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins, hafa ÍBR og Íslandsbanki efnt til góðgerðarhlaups sem fer fram klukkan 14:00 á morgun. Forsetahjónin, Steindi, Dagur B. Eggertsson og fleiri eru meðal þátttakenda.

Hlaupið verður í formi 10 kílómetra boðhlaups og þátttakendum er skipt upp í lítil holl sem hlaupa einn kílómeter.

Eliza Reid og Guðni Th. Jóhannesson, verða á ráspól í hlaupinu í Lækjargötu og hlaupa fyrsta spölin áður en læknirinn og maraþonhlauparinn Elín Edda Sigurðardóttir, sjónvarpskonan Eva Ruza Miljevic, og nokkrir úr Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins svo einhverjir séu nefndir taka við

Maraþonhlaupararnir Arnar Pétursson og Martha Ernst taka einnig þátt og verða það Steindi og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem taka lokasprettinn.

Hlaupaleiðin er 10 kílómetrar.
Hlaupaleiðin er 10 kílómetrar. Kort

Hafa safnað 50 milljónum króna

Þrátt fyrir að Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem átti að fara fram á morgun hafi verið aflýst vegna kórónuveirufaraldursins hafa margir hlauparar haldið áfram að safna áheitum og ætla að hlaupa leið og vegalengd að eigin vali. Hægt er að safna áheitum til 26. ágúst en hingað er búið að safna 50 milljónum króna.

Alls hafa 157 góðgerðarfélög tekið þátt í söfnuninni í ár og málefnin sem hlauparar geta hlaupið fyrir því fjölmörg. Hægt er að finna frekari upplýsingar og heita á hlaupara á hlaupastyrkur.is

Rafrænir verðlaunapeningar í formi filters

Allir sem hlaupa til góðs í góðgerðarhlaupi Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka fá afhentar rafrænar medalíur að hlaupi loknu. Medalíurnar eru í formi „filters“ á samfélagsmiðlum.

Að hlaupi loknu geta hlauparar náð sér í rafrænan verðlaunapening sem þeir geta skreytt sig með á Facebook eða Instagram en peningurinn er unninn af auglýsingastofunni H:N Markaðssamskiptum.

„Það er ótrúlegur fjöldi fólks sem er bæði búið að hlaupa og ætlar að hlaupa til góðs þessa daga sem góðgerðarhlaupið stendur yfir. Við höfum þurft að aðlaga margt hjá okkur að breyttum raunveruleika og þar sem við getum ekki afhent hefðbundna verðlaunapeninga eins og venja er, brugðum við á það ráð að bjóða upp á rafræna verðlaunapeninga þetta árið,“  segir Katrín Petersen, verkefnastjóri hjá Íslandsbanka.

Rafrænu verðlaunapeningana er hægt að sækja hér fyrir Facebook og hér fyrir Instagram. 

Steindi með filterinn.
Steindi með filterinn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina