Gagnrýnin á fullan rétt á sér

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, segir vandasamt að …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, segir vandasamt að kveða upp stóra dóma um réttar eða rangar ákvarðanir í faraldri. mbl.is/Arnþór

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, segir að forgangsatriði sé að vinna bug á kórónuveirufaraldrinum innanlands. Gagnrýni innan ferðaþjónustunnar eigi þó fullan rétt á sér, á tímum þar sem óvissa ríkir. 

„Það er dýrara að loka starfsemi innanlands heldur en að loka allri ferðaþjónustu en við þurfum þó að horfa til þess hvort valið sé á milli þessara tveggja kosta og engra annarra,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is.

Vill efnahagsgreiningu á sóttvarnaaðgerðum 

Ráðherrann lagði minnisblað fyrir ríkisstjórnina á þriðjudaginn síðastliðinn, þar sem hún lagði áherslu á að unnið yrði að ítarlegri efnahagsgreiningu á sóttvarnaaðgerðum og lagt yrði heildstætt mat á þjóðhagslegan kostnað og ávinning af misströngum sóttvarnarreglum – annars vegar á landamærunum og hins vegar innanlands. 

„Við höfum rætt minnisblaðið í ríkisstjórn og mitt hlutverk er auðvitað að koma þessum upplýsingum til ríkisstjórnarinnar, til þess að geta tekið þessa umræðu. Ég veit að þessi vinna er þegar farin af stað í stjórnkerfinu,“ segir Þórdís. Málið kalli á samspil milli ráðuneytanna.

Allir átti sig þó á alvarleika málsins; fyrir faraldur komu tugir farþegavéla til landsins sem nú eru orðnar örfáar á dag vegna þess ástands sem ríkir. Þrátt fyrir að flugbransinn beri þungt högg af sóttvarnaaðgerðum sé óvissan slík að ómögulegt sé að hafa nægilegan fyrirsjáanleika í ákvarðanatöku. 

„Þessar aðstæður gera fólki í atvinnulífinu illmögulegt og stundum alveg ómögulegt að taka ákvarðanir, svo þau sjónarmið sem fram hafa komið frá atvinnulífinu hafa fullan rétt á sér,“ segir Þórdís. 

„Staðreyndin er sú að aðstæður breytast hér innanlands og erlendis líka. Við sjáum að víða erlendis er smitum að fjölga. Allt hefur þetta áhrif og kallar á samspil í samgangna- og innanlandsstarfsemi, hvort sem það er á milli fyrirtækja, skóla eða menningarstarfsemi,“ segir hún.

Kostir í stöðunni eru í sífelldri skoðun hjá ríkisstjórninni og kallaði því ráðherra eftir dýpri greiningu á áhrifum mismunandi valkosta. Af því tilefni fjallaði Þórdís m.a. um mikilvægi gjaldeyristekna í Facebook-færslu sem birtist í dag.

„Þetta er auðvitað risastórt verkefni og kallar á mikla vinnu. Vonandi erum við að færast nær og nær skotmarkinu. En óvissan er enn þá mikil, því miður,“ segir Þórdís að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert