„Við erum endalaust þakklát“

Sigríður Erla hljóp hálfmaraþon fyrir Berglindi sem er til hægri …
Sigríður Erla hljóp hálfmaraþon fyrir Berglindi sem er til hægri á myndinni. Gætt var að sóttvarnareglum. Ljósmynd/Aðsend

Berglind Gunnarsdóttir, landsliðskona í körfubolta og læknanemi við Háskóla Íslands, slasaðist alvarlega í rútuslysi rétt fyrir utan Blönduós í janúar þegar hún var á leið í skíðaferð til Akureyrar með samnemendum sínum. 

Berglind hefur síðan verið í endurhæfingu, en hún hlaut háls- og mænuáverka í slysinu og var flutt með þyrlu til Reykjavíkur frá slysstað. 

Aðstandendur Berglindar settu í vor af stað söfnun fyrir Berglindi, en til stóð að hópurinn hlypi í Reykjavíkurmaraþoninu sem fram átti að fara í dag. Eftir að maraþoninu var aflýst fyrr í sumar vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, ákváðu þau sem standa að baki Hlaupum fyrir Berglindi að halda sitt eigið hlaup í Stykkishólmi hvaðan Berglind er ættuð. 

Frækinn hópur hlaupara.
Frækinn hópur hlaupara. Ljósmynd/Aðsend

Sigríður Erla Sturludóttir, vinkona Berglindar og ein þeirra sem standa að baki söfnuninni, segir í samtali við mbl.is að hlaupið hafi gengið eins og í sögu. Yfir 100 hlauparar söfnuðu áheitum fyrir Berglindi en alls tóku 87 þátt í hlaupinu í Stykkishólmi í dag. 

„Það er búið að vera alveg dásamlegt, logn og blíða og yndislegt alveg. Þetta var allt svo ótrúlega vel heppnað. Þetta er búið að vera alveg yndislegur dagur, svo mikil samstaða hérna í Stykkishólmi og það er svo dásamlegt hvað allir eru að standa saman í þessu verkefni. Það hafa allir fylgt ýtrustu sóttvarnareglum og þetta hefur gengið bara ótrúlega vel,“ segir Sigríður Erla.  

Ljósmynd/Aðsend

Í Stykkishólmi hafa margir af veitingastöðum bæjarins ákveðið að leggja hönd á plóg og lagt söfnuninni lið með ágóða af veitingasölu við höfnina þar sem hlaupararnir komu í mark. Sigríður Erla segir að ágóði söfnunarinnar eigi eftir að koma sér vel í endurhæfingarferli Berglindar. 

„Hún lenti í rútuslysinu í janúar þegar hún var að fara í skíðaferð með læknisfræðinni, og slasast mjög illa á mænu og hálsi og var í byrjun alveg lömuð fyrir neðan háls. Við erum að safna núna fyrir endurhæfingunni hennar, hún er búin að ná ótrúlegum bata, er farin að ganga, en það er samt langt í land svo við erum að safna fyrir þessu kostnaðarsama endurhæfingarferli sem heldur náttúrulega áfram og líka bara til að hjálpa henni að komast aftur út í lífið,“ segir Sigríður. 

Hafa safnað tæpum 10 milljónum 

Hlaupum fyrir Berglindi hefur alls safnað rétt tæpum 10 milljónum í gegnum Hlaupastyrk, en Sigríður Erla sjálf hefur safnað rúmum 730 þúsund krónum. Hópurinn vonast til að safna yfir 10 milljónum á Hlaupastyrk, en söfnunin heldur áfram út miðvikudaginn. 

„Það hefur gengið alveg rosalega vel. Við erum búin að safna núna 9,8 milljónum inn á Hlaupastyrk og svo plús það sem safnaðist beint í sjóðinn svo það hefur gengið alveg frábærlega,“ segir Sigríður um söfnunina. 

Sigríður Erla segir yndislegt hve mikil samstaða sé í Stykkishólmi.
Sigríður Erla segir yndislegt hve mikil samstaða sé í Stykkishólmi. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum alveg endalaust þakklát. Þetta er alveg ómetanlegur stuðningur sem við höfum fengið síðustu vikur og daga. Þetta kemur sér mjög vel og mun hjálpa Berglindi að halda áfram með sitt endurhæfingarferli og bara halda áfram með lífið.“

Sigríður segir að Berglind hafi sjálf „rúntað“ um bæinn með systur sinni og hvatt hlauparana áfram. Hún tók síðan á móti þeim við endamarkið, en Sigríður segir magnað hve mikil stemning hafi skapast í kringum hlaupið í bænum. 

„Það hafa verið þvílíkar hvatningarstöðvar úti um allt, heimamenn sáu um drykkjarborð og það hafa verið flögg, fánar og blöðrur úti um allt og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var alveg dásamlegt,“ segir Sigríður. 

Hægt er að heita á Hlaupum fyrir Berglindi hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert