Kári Stefánsson orðinn að húðflúri

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar tekur sig vel út sem …
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar tekur sig vel út sem húðflúr. Ljósmynd/Ólafía_K

Ólafía Kristjánsdóttir húðflúrari fékk heldur óvenjulega beiðni um helgina. Hún fékk það verkefni að flúra ljósmynd af Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, aftan á kálfann á viðskiptavini sínum, sem er að sögn Ólafíu mikill aðdáandi læknisins. 

„Þetta var bara núna í gær og tók nokkra klukkutíma. Frænka mannsins míns hafði samband við mig og ákvað að fá sér mynd af Kára Stef. Mér fannst það alveg frábær hugmynd, ég Elska Kára og finnst hann alveg æðislegur. Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og ég var mjög spennt fyrir þessu,“ segir Ólafía í samtali við mbl.is. 

Ólafía Kristjánsdóttir, húðflúrari.
Ólafía Kristjánsdóttir, húðflúrari. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er fyrsta beiðnin sem ég fæ um að flúra Kára. Það er alveg algengt að fólk biðji mig um að flúra portrétt myndir af frægu fólki eða ástvinum, en mér fannst þetta mjög sérstakt þar sem hún þekkir hann ekki sjálf og er ekki tengd honum fyrir utan það að hún elskar hann,“ segir Ólafía. 

„Hann er svo skemmtilegur karakter að mér fannst þetta mjög spennandi verkefni. Hún var mjög ánægð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Birna Kristjánsdóttir: Yes!