Watson á Vestfjörðum

Birtan var engu lík þegar Árni var á ferð í …
Birtan var engu lík þegar Árni var á ferð í Arnarfirði á dögunum. Árni Sæberg

Vestfirðir voru í sínu allra besta pússi þegar Árni Sæberg ljósmyndari leit þar við fyrr í mánuðinum ásamt enskri vinkonu sinni, Catherine Sherlock, sem féll ítrekað í stafi yfir fegurðinni í sinni fyrstu heimsókn í þessa undraveröld.

„Ensk vinkona mín, sem hefur búið hérna í fjögur ár, hafði aldrei komið á Vestfirði og þess vegna tók ég að mér að skipuleggja sex daga ferð þangað núna um miðjan ágúst til að kynna fyrir henni dýrðina. Hún hefur farið hringinn kringum landið og þótti mikið til koma en sleppti þá Vestfjörðunum,“ segir Árni Sæberg, ljósmyndari Morgunblaðsins, um ferðalag sem hann er nýkominn úr.

„Hún heitir Catherine Sherlock, skrifað eins og Sherlock Holmes,“ upplýsir Árni.

Fjara á leið út Arnarfjörð.
Fjara á leið út Arnarfjörð. Árni Sæberg


– Varst þú þá dr. Watson þarna fyrir vestan?

„Já, það má eiginlega segja það,“ svarar Árni og skellir upp úr.
Sherlock fól dr. Watson að gera viðeigandi ráðstafanir. „Það var smá vesen og stress, þar sem ég er víðfægur fyrir minn athyglisbrest og þegar ég er einn á ferð um landið sef ég vanalega bara í bílnum,“ segir Árni sposkur. „En ég var í skóla á Núpi í tvö ár í gamla daga og þekki Vestfirðina mjög vel, þannig að þetta slapp allt saman til; við fengum þessa fínu gistingu á leiðinni.“

Og það í uppábúnum rúmum en ekki bílsætum.

Túnspretta er góð í Bíldudal eftir rigningarnar framan af ágúst.
Túnspretta er góð í Bíldudal eftir rigningarnar framan af ágúst. Árni Sæberg


Blautt hefur verið vestra seinni hluta sumars og Árni segir heimildarmenn sína á svæðinu hafa fullyrt að rignt hefði í heilar sex vikur samfellt áður en þau Catherine lögðu í’ann. „Spáin var heldur ekki góð en við ákváðum samt að láta slag standa enda eftirvæntingin mikil.“
Þau hófu leikinn raunar í sól á Patreksfirði en eftir það var að mestu skýjað á leiðinni, enda þótt hann hafi lengst af hangið þurr. „Það kom ekki að sök. Það er ekkert að því að ferðast við þessi skilyrði; þá sleppur maður við rykið, tíbránna og hitauppstreymið. Allt er hreint og tært þegar skýin eru búin að losa sig við vætuna. Við fengum alls konar birtu og nutum í botn.“

Raunar gott betur en að sögn Árna féll Catherine í stafi þar vestra. „Hún sagði „vá“ á fimm mínútna fresti og bað mig um að stoppa bílinn. Rauk svo út til að taka myndir á nýja símann sinn og sendi síðan foreldrum sínum á Englandi. Þau fylgdust stjörf með þessari undraveröld allan tímann.“

Listasafn Samúels Jónssonar í Selárdal er vinsæll viðkomustaður.
Listasafn Samúels Jónssonar í Selárdal er vinsæll viðkomustaður. Árni Sæberg


Auk ljósmyndaáhugans er Catherine í myndlist og segir Árni ferðalagið hafa farið langt fram úr hennar væntingum. „Vestfirðir eru það fallegasta sem hún hefur séð á Íslandi. Engin spurning. Það var ekki bara birtan og náttúran, heldur ekki síður kyrrðin og róin. Maður losar um leið um allt stress og streitu þegar maður keyrir inn á þessa einstöku firði.“

Mæltu manna heilastur, minn kæri Watson. Mæltu manna heilastur.

Fleiri myndir úr ferðalaginu má sjá í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »