Abstrakt íshellir í ísbúð

Tobia stundaði nám við arkitektúr í Vínarborg.
Tobia stundaði nám við arkitektúr í Vínarborg. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Ný ísbúð hefur verið opnuð á fjórðu hæð í Perlunni. Ísbúðin hefur vakið nokkra athygli fyrir innanhússhönnun, þá helst veggurinn og loftið á bak við afgreiðsluborðið, sem sjá má á meðfylgjandi myndum. Það var ítalski innanhússhönnuðurinn Tobia Zambotti sem hannaði vegginn, en hann hefur verið búsettur á Íslandi um nokkurt skeið.

„Verkefnalýsingin var mjög einföld. Það sem ég þurfti að gera var að hanna eitthvað instagram-vænt og íkonískt með sterkt auðkenni,“ segir Tobia í samtali við mbl.is. Hann segist hafa sótt innblástur í íslenska náttúru, ekki síst íshellinn sem finna má á jarðhæð perlunnar, ef náttúru má kalla.

„Hugmyndin var að skapa abstrakt íshelli,“ segir Tobia, en við verkið notaði hann hljóðeinangrandi froðu sem hann mótaði í nokkurs konar grýlukerti. „Ég ákvað að nota þetta efni vegna þess að ísvélin er mjög hávær,“ segir Tobia, en hönnunin drekkur í sig allan þann hávaða sem stafar af stórum frysti og ísvél á bak við vegginn.

mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Úr kaótískum lífsstíl til Reykjavíkur

Tobia stundaði nám við arkitektúr í Vínarborg og hélt svo í framhaldsnám í innanhússhönnun í Mílanó. Að loknu námi starfaði hann í Sjanghæ undir handleiðslu innanhússhönnuðarins Albertos Caiola.

„Eftir eitt ár í Sjanghæ kom ég hingað. Konan mín bjó í Reykjavík og ég ákvað að flytja hingað og breyta um lífsstíl; úr mjög kaótískum lífsstíl í mjög rólegan hér í Reykjavík.“ Það var þá sem Tobia kynntist Gunnari Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Perlunnar.

Í samtali við mbl.is segir Gunnar að markmið ísbúðarinnar sé að breyta íslenskri ísmenningu. Hann vilji að viðskiptavinir staldri við og njóti aðstöðunnar í Perlunni, sem og íssins sem er framleiddur á staðnum, í staðinn fyrir að kaupa ís og keyra svo heim. Ísbúðin var opnuð í júní, en kórónuveirufaraldurinn hefur sett nokkurt strik í reikninginn er reksturinn varðar. Hann segir þó að umferðin sé að taka við sér.

mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Tobia segir að það sé mikilvægur hluti innanhússhönnunar að rými komi vel fyrir á samfélagsmiðlum; að rýmið sé, eins og Tobia orðar það, instagram-vænt. „Ef þú vilt hanna avant-garde eða nútímaleg rými er mikilvægt að huga að sjónarhóli myndavéla þeirra sem koma í heimsókn. Það er grundvallaratriði.“

Markmiðið með slíkri hönnun, frá rekstrarsjónarmiði, sé að fá ókeypis auglýsingar á samfélagsmiðlum.

„Til að ná því fram er verkefni hönnuðarins að skapa ákveðið -umhverfi, svo fólk sé hvatt til að taka myndir og birta þær á samfélagsmiðlum.“

mbl.is