Baráttunni við veiruna hvergi nærri lokið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir baráttunni við kórónuveiruna hvergi nærri lokið.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir baráttunni við kórónuveiruna hvergi nærri lokið. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að baráttunni við veiruna sé hvergi nærri lokið. „En þegar henni lýkur er okkar markmið að hægt verði að segja að saman hafi okkur tekist að vernda heilsu, efnahag og frelsi okkar þannig að þjóðlífið allt verði fyrir sem minnstum skaða og þjóðinni takist að vinna hratt til baka það sem tapast hefur í þessum faraldri.“ 

Þetta kemur fram í aðsendri grein forsætisráðherra í Morgunblaðinu í dag. Hún segir að frá upphafi hafi leiðarljós stjórnvalda verið að forgangsraða heilbrigði þjóðarinnar og því hafi verið gripið til töluverðra sóttvarnaráðstafana til að hefta útbreiðslu faraldursins. Annað leiðarljós hafi verið að lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif faraldursins bæði til skemmri og lengri tíma þannig að þau hafi sem minnst áhrif lífsgæði almennings.

„Faraldurinn hefur verið í vexti í heiminum undanfarnar vikur. Smitum á landamærum hefur fjölgað í réttu hlutfalli við það. Allt bendir til að önnur bylgja faraldursins hér á landi tengist smitum sem hafa flotið yfir landamærin þrátt fyrir varúðarráðstafanir. Við blasti að það þurfti að vega og meta hvernig ætti að heyja næstu orrustu í því stríði sem staðið hefur yfir á Íslandi allt frá lokum febrúar.

Niðurstaða ríkisstjórnarinnar, að fengnum tillögum okkar færustu vísindamanna, var að herða þyrfti aðgerðir á landamærum með því að taka þar upp tvöfalda skimun með 4 til 5 daga sóttkví á milli sem valkosti við 14 daga sóttkví. Þar var byggt á reynslunni af aðgerðunum frá 13. júlí, þær útvíkkaðar og hertar. Ákvörðunin byggist á þróun faraldursins hér heima og erlendis en líka á þeim leiðarljósum sem sett voru í upphafi, að verja líf og heilsu fólks og tryggja að samfélagið geti gengið áfram með sem eðlilegustum hætti.

Þessi ákvörðun var kynnt fyrir rúmri viku, þann 14. ágúst. Hún hefur vakið töluverða umræðu, bæði um hagræna þætti og borgaraleg réttindi.

Í aðdraganda þess að farið var að skima á landamærum og þannig greitt fyrir umferð lét ríkisstjórnin vinna hagræna greiningu á þeirri stöðu. Hún hefur nú verið uppfærð með tilliti til reynslunnar. Margt áhugavert kemur þar fram, meðal annars að hagræn rök hnigi að því að herða beri aðgerðir á landamærum til þess að tryggja að innanlandshagkerfið verði ekki fyrir of miklu raski af hörðum sóttvarnaráðstöfunum. Þar er enn fremur bent á að ferðatakmarkanir sem ákveðnar eru hér á landi eru ekki það eina sem ræður fjölda ferðmanna, þar skipta ferðatakmarkanir annarra ríkja líka máli en einnig almennur ferðavilji sem gera má ráð fyrir að minnki þegar faraldurinn er í miklum vexti . Stjórnvöld munu áfram vinna að því að meta áhrif faraldursins og sóttvarnaráðstafana á efnahagslífið.

Slíkt mat er flókið og ólíkar atvinnugreinar verða fyrir mismunandi áhrifum – þannig er augljóst að harðar aðgerðir á landamærum hafa einkum neikvæð áhrif á ferðaþjónustu en harðar sóttvarnaráðstafanir innanlands hafa einnig víðtæk áhrif á allar atvinnugreinar, líka ferðaþjónustu. Þrátt fyrir erfiða stöðu erum við svo lánsöm að íslensk náttúra og fagleg ferðaþjónusta munu halda áfram að laða hingað gesti hvaðanæva úr heiminum. Ef Íslandi mun takast vel upp í baráttunni við veiruna getur það orðið styrkleiki ferðaþjónustunnar til lengri tíma.

Ólík lönd hafa ólík hagkerfi og atvinnugreinar hafa þar mismikið vægi. Í gögnum frá Eurostat kemur fram að á öðrum ársfjórðungi þessa árs hefur þýska hagkerfið dregist saman um tíu prósent og það breska um 20% en þar þurfti að ráðast í gríðarlega harðar sóttvarnaaðgerðir innanlands. Áhugavert er að sjá að samdráttur í Danmörku (-7,4%) og Finnlandi (-3,2%) á þessum sama ársfjórðungi er minni en í Svíþjóð (-8,6%) sem þó beitti vægari sóttvarnaráðstöfunum. Þarna spilar margt inn í en segir okkur samt að ekki er hægt að draga þá einföldu ályktun að harðar sóttvarnaráðstafanir skili sjálfkrafa meiri samdrætti.

Hvað varðar umræðuna um borgaraleg réttindi er hún mikilvæg og kannski furða að hún hafi ekki vaknað löngu fyrr. Vissulega hafa sóttvarnaráðstafanir haft áhrif á réttindi landsmanna þó að óvíða í Evrópu hafi frelsi manna verið takmarkað minna en hér á landi seinustu sex mánuði. Það hversu hratt fólk kemst yfir landamæri Íslands er ekki það eina sem máli skiptir, líta þarf til samfélagsins alls. Það þarf að líta til skólastarfs, menningar- og íþróttastarfs og vega og meta þær umtalsverðu hömlur sem settar hafa verið á atvinnuréttindi þúsunda manna. Mestu takmarkanirnar hafa snúist um hjúkrunarheimili sem hafa verið vernduð hér á landi, tugþúsundir eldri borgara og þeir sem haldnir eru alvarlegum sjúkdómum hafa mátt búa við verulega félagslega einangrun.

Sóttvarnaráðstafanir hafa áhrif á margs konar réttindi, um það er ekki deilt. Mat ríkisstjórnarinnar var hins vegar að fimm daga ferðatími yfir landamærin væri vægari skerðing réttinda en ýmsar þær hömlur sem gripið var til í vor og yfirvofandi eru ef okkur mistekst að halda veirunni í skefjum. Að sjálfsögðu skiptir hér máli að vega og meta með reglubundnum hætti stöðu faraldursins í nágrannalöndum okkar þegar horft er til hversu lengi þessi ráðstöfun stendur,“ segir Katrín meðal annars í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert