Ísland gæti tekið þátt í þvingunaraðgerðum

Mótmælendur sem andstæðir eru ríkisstjórn Hvíta-Rússland hafa látið í sér …
Mótmælendur sem andstæðir eru ríkisstjórn Hvíta-Rússland hafa látið í sér heyra síðustu vikur. AFP

Náist samstaða um alþjóðlegar þvingunaraðgerðir vegna ofbeldisfullra afskipta lögreglu af mótmælendum í Hvíta Rússlandi kemur sterklega til greina að Ísland taki þátt í þeim, að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis um þau málefni, að því er fram kemur í skriflegu svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is. Viðskipti Hvíta-Rússlands og Íslands nema nokkrum milljörðum árlega. 

Mótmæli spruttu upp í Hvíta-Rússlandi í kjölfar úrslita kosninga þar í landi sem voru forsetanum Al­ex­and­er Lúka­sj­en­kó í vil. Kosninganiðurstöðurnar hafa verið sagðar falsaðar og hefur Evrópusambandið m.a. ekki viðurkennt úrslit þeirra. 

Í svari utanríkisráðuneytisins kemur fram að rétt eins og önnur Evrópuríki beri íslensk stjórnvöld brigður á niðurstöður forsetakosninganna og telji þær hvorki hafa farið fram í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Hvíta-Rússlands né standast viðmið um lýðræði og réttarríki. Sameiginleg yfirlýsing allra NB8-ríkjanna um slíkt var gefin út fyrr í mánuðinum.

Mótmælandi sem er andstæður stjórnvöldum í Hvíta-Rússlandi dreginn af vettvangi …
Mótmælandi sem er andstæður stjórnvöldum í Hvíta-Rússlandi dreginn af vettvangi af lögreglumönnum. AFP

3.718 milljóna króna viðskipti 

Heildarviðskipti Íslands og Hvíta-Rússland árið 2018, sem er síðasta ár sem tölur eru til um bæði vöru- og þjónustuviðskipti, námu tæpum fjórum milljörðum króna, nánar til tekið 3.718 milljónum króna.

„Útflutningur til Hvíta-Rússlands er fyrst og fremst sjávarafurðir en innflutningur þaðan er einkum ýmis konar iðnvörur. Á sínum tíma áttu Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) í viðræðum við tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan (RuBeKa) en þær hafa legið niðri frá 2014 vegna Úkraínudeilunnar“, segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is. 

Málefni Hvíta-Rússlands eru mikið til umræðu á alþjóðlegum vettvangi um þessar mundir, að því er fram kemur í svarinu. 

„Fyrir utan samráð á vettvangi NB8-ríkjanna hefur utanríkisráðherra fyrir sitt leyti meðal annars rætt þessi mál á símafundi með Evrópumálaráðherra Bretlands, Wendy Morton, í [síðustu viku]. Þá hefur náið samráð farið fram á embættisstigi, meðal annars við Norðurlönd og Bretland auk þess sem fastafulltrúi Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) hefur rætt málefnið óformlega á þeim vettvangi.“

Samhljómur í afstöðu

Þá hefur Ísland stutt að haldinn verði sérstakur fundur fastaráðs ÖSE í vikunni þar sem aðildarríkjunum gefst tækifæri til að krefja fulltrúa Hvíta-Rússlands svara um stöðu mála og fara fram að á stjórnvöld þar geri annars grein fyrir máli sínu.

„ÖSE gegnir mikilvægu hlutverki við eflingu öryggis, friðs, mannréttinda, lýðræðis og átakavarna í aðildarríkjunum 57, þar á meðal Hvíta-Rússlands, og er því eðlilegur vettvangur til að fjalla um þessa deilu. Annars er alger samhljómur í afstöðu Íslands í málinu og helstu bandamanna okkar og vinaþjóða“, segir í svari ráðuneytisins. 

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra setti inn færslu á Twitter í gær þar sem hann segist hrifinn af þeirri samstöðu sem íbúar Eystrasaltsríkjanna hafi sýnt Hvítrússum sem berjist fyrir mannréttindum, lýðræði og frelsi í heimalandinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert