Skjálftar af þessari stærð venjast ekki

„Miðað við þær lýsingar sem ég hef fengið er þessi …
„Miðað við þær lýsingar sem ég hef fengið er þessi skjálfti ekkert sterkari en þeir sem við höfum fengið fyrr á þessu ári,“ segir Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkurbæjar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Grindvíkingar urðu vel varir við skjálfta upp á 4,2 sem varð klukkan 16.15 í dag, að sögn bæjarstjóra Grindavíkurbæjar. Hann segir að árið 2020 hafi verið mikið skjálftaár og Grindvíkingar séu orðin öllu vanir en skjálftar af þessari stærð venjist þó ekki.

„Hann fannst ágætlega í Grindavík. Hann er þó talsvert langt í burtu frá okkur svo hann fannst kannski alveg jafn vel á höfuðborgarsvæðinu og hjá okkur,“ segir Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkurbæjar.

Skjálftinn átti upp­tök sín 3,2 kíló­metra aust­ur af Fagradalsfjalli á Reykja­nesi. Fannar var á leið frá Grindavík til Reykjavíkur þegar skjálftinn varð en hann á ekki von á því að tjón hafi orðið í byggð.

Mikið skjálftaár

„Miðað við þær lýsingar sem ég hef fengið er þessi skjálfti ekkert sterkari en þeir sem við höfum fengið fyrr á þessu ári,“ segir Fannar. 

„Þetta hefur verið mikið skjálftaár en það hefur verið friðsamlegt síðustu vikurnar. Þetta eru fyrstu skjálftarnir sem við höfum fundið fyrir á síðustu vikum þó þeir hafi mælst smáir og þó nokkuð margir inn á milli.“

Spurður hvort Grindvíkingar séu orðnir öllu vanir jánkar Fannar því. „En þetta venst nú samt ekki þegar skjálftarnir eru af stærri gerðinni eins og þessi.“

Skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og hafa mbl.is einnig borist ábendingar um að hans hafi orðið vart á Stokkseyri og í Vestmannaeyjum.

Annar skjálfti varð fyrr í dag sem fannst víða á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Hann var af stærðinni 3,7 og varð 2,9 kíló­metra aust­ur af Fagra­dals­fjalli um klukk­an kort­er í tvö í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert