„Þetta er hin mesta ráðgáta“

Aðgerðir vegna smitsins hafa áhrif á stóran hóp fólks, t.a.m. …
Aðgerðir vegna smitsins hafa áhrif á stóran hóp fólks, t.a.m. íbúa Hlífar sem hafa verið beðnir um að hafa sig hæga. Gylfi segir mikilvægt að gild ástæða sé fyrir slíkum aðgerðum. Ljósmynd/Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Íbúi á Hlíf, íbúðum fyr­ir eldri borg­ara á Ísaf­irði, sem talinn er smitaður af kórónuveirunni greindist ósmitaður í annarri sýnatöku sem niðurstöður fengust úr í dag. Áður hafði viðkomandi greinst smitaður en eftir að mótefnamæling sýndi neikvæðar niðurstöður var annað sýni tekið hjá íbúanum sem reyndist neikvætt. 

Enn er þó óljóst hvort viðkomandi sé smitaður eður ei, enda sýndi annað sýnið jákvæða niðurstöðu. Því fer íbúinn í þriðju sýnatökuna á morgun. Þetta staðfestir Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, í samtali við mbl.is. Vísir greindi fyrst frá því að annað sýnið hefði verið neikvætt. 

Fagnaðarefni

„Þetta er hin mesta ráðgáta. Við erum í sambandi við rakningarteymið og Kamillu [Sigríði Jósefsdóttur staðgengil sóttvarnalæknis] vegna þessa. Það á að taka aftur sýni á morgun og sjá hvað það segir,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is. 

Rúmlega 30 manns fóru í skimun sl. sunnudag eftir að smitið greindist á laugardag. Engin ný smit greindust í þeirri skimun, sem Gylfi segir fagnaðarefni og það sýni fram á að ekki sé um hópsýkingu að ræða. 100 manns sem eru í ytri hring íbúans sem um ræðir fóru í skimun í morgun. 

„Niðurstöður úr þeirri skimun eru væntanlegar í fyrramálið og þá verður hægt að taka einhverja upplýstari ákvörðun um næstu skref,“ segir Gylfi. 

Megi ekki loka fólk inni lengur en þarf

Óvitað er hvers vegna íbúinn greindist fyrst smitaður og svo ekki. Spurður hvers vegna hann hafi farið í aðra sýnatöku segir Gylfi:

„Það var gerð mótefnamæling og hún var neikvæð. Það hafa allir í kring verið neikvæðir líka.“

Aðgerðir vegna smitsins hafa áhrif á stóran hóp fólks, t.a.m. íbúa Hlífar sem hafa verið beðnir að hafa sig hæga.

„Ef það er einhver minnsti vafi um að það sé þörf á því öllu saman þá er eðlilegt að það sé gerð mótefnamæling og annað sýni og nú á að taka þriðja sýnið. Það er eldra fólk sem býr í þessum íbúðum og er þar með í áhættuhópi og það verða ekki teknir neinir sénsar með það. Við vitum aftur á móti að það er bæði leiðinlegt og beinlínis vont að loka fólk inni, bæði fyrir líkama og sál, þannig að það má ekki vera lengur en þörf krefur og ekki nema það sé raunveruleg ástæða fyrir því,“ segir Gylfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert