7% lögð inn á spítala síðast en 2,5% nú

„Við erum auðvitað í bylgju núna, það er alveg augljóst,“ …
„Við erum auðvitað í bylgju núna, það er alveg augljóst,“ sagði Alma D. Möller landlæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Um 7% þeirra sem greindust með kórónuveirunna í fyrstu bylgju faraldursins lögðust inn á spítala vegna COVID-19. Í annarri bylgju faraldursins hafa um 2,5% þeirra sem greinst hafa smituð þurft að leggjast inn á sjúkrahús og mun færri á gjörgæslu. Þetta kom fram í máli Ölmu D. Möller landlæknis á upplýsinafundi almannavarna í dag. 

Hún sagði þetta skýrast af blöndu af mörgum þáttum. Yngra fólk hafi veikst í annarri bylgju en þeirri fyrri en yngra fólk verður almennt minna veikt vegna veirunnar en eldra fólk. Svo hefur skimun verið víðtækari nú heldur en þá. Því er líklegt að meira hafi verið um að einkennalausir hafi greinst smitaðir í annarri bylgju veirunnar hérlendis en þeirri fyrri. 

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, á fundinum í dag.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, á fundinum í dag. Ljósmynd/Almannavarnir

Vel líklegt að einhver smitanna séu gömul

Þá sagði Alma einnig að vegna varúðar sem viðhöfð hefur verið séu líkur á því að hver og einn fái minni veiru í sig við smit. Það endurspeglist í minni veikindum.

Alma sagði þó ekki fyllilega ljóst hvers vegna færri legðust inn á spítala vegna veirunnar þá en nú og gott eftirlit hjá COVID-19-göngudeild Landspítalans spilaði einnig þar inn í. 

Á fundinum var Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, spurð um það hvort einhver þeirra smita sem séu að greinast nú séu gömul. Kamilla svaraði því til að það væri vel líklegt. Eitthvað væri um það og slíkt kæmi í ljós í raðgreiningu. 

1-6 smit daglega fram í lok september

Alma og Kamilla svöruðu spurningu um það hvort nú væri kominn stöðugleiki í smit innanlands og hvort búast mætti við 4-5 smitum daglega framvegis. 

„Við erum auðvitað í bylgju núna, það er alveg augljóst,“ sagði Alma og bætti því við að spálíkan Háskóla Íslands gerði ráð fyrir því að 1-6 smit greinist daglega fram í lok september. Þeim muni vonandi fækka í kjölfarið ef ekki verði „meira innflæði af smitum“. 

Kamilla benti á að yfir 1.000 manns væru í sóttkví núna vegna tengsla þeirra við smitað fólk og varlega þyrfti að spá fyrir um það hversu stór hluti þeirra muni greinast smitaður. Hún tók undir með Ölmu og sagði að hægt væri að búast við allt að sex smitum á dag fram eftir september. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert