Fór í fimm sýnatökur

Sýni rannsökuð á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.
Sýni rannsökuð á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Nokkur dæmi eru um að ekki hafi verið samræmi á milli sýna sem tekin eru vegna smits kórónuveiru, rétt eins og hjá íbúa í þjónustuíbúð á Ísafirði sem fyrst greindist smitaður en ósmitaður í seinni sýnatöku. Yfirlæknir á COVID-19-göngudeild segir að sýni séu tekin hjá fólki þar til læknar séu sannfærðir um niðurstöðu þeirra og í einu tilviki hafi einstaklingur undirgengist fimm sýnatökur. Einkenni hans reyndust að lokum orsakast af annarri veiru. 

„Það hefur einstaka sinnum gerst að það hafi ekki verið samræmi á milli sýna. Þá hafa bara verið tekin fleiri sýni sem hafa annaðhvort staðfest smit eða ekki. Það gerðist alla vega einu sinni eða tvisvar í fyrri faraldri,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir COVID-19-göngudeildar Landspítalans. 

Taka fyrst og fremst mark á einkennum

Íbúinn á Hlíf fer í þriðju sýnatökuna í dag en annað sýni var tekið eftir að enginn í hans innsta hring greindist smitaður. 

Á hvaða sýnatöku er mark tekið ef þær eru orðnar fleiri en ein og sýna mismunandi niðurstöður?

„Fyrst og fremst klínískum einkennum sjúklings og svo sýnatöku. Maður heldur áfram að taka sýni þar til maður er sannfærður,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.

Hefur einhver farið í fleiri sýnatökur en þrjár? 

„Ég veit um eitt tilfelli þar sem einstaklingur fór í fimm sýnatökur. Hann var með viðvarandi einkenni en að lokum reyndist önnur veira hafa orsakað þau,“ segir Ragnar. 

Falskar niðurstöður óalgengar

Falskar jákvæðar niðurstöður úr sýnatöku vegna COVID-19 eru mjög óalgengar, að sögn Ragnars. 

„Það er þó auðvitað allt til í dæminu og getur gerst en það er mjög sjaldgæft að fólk fái falskar jákvæðar niðurstöður. Eðli rannsóknarinnar er að leita bara að hluta erfðaefnis veirunnar.“

100 manns sem eru í ytri hring íbú­ans í þjónustuíbúð Hlífar á Ísafirði fóru í skimun í morgun og er niðurstaðna úr þeirri skimun að vænta í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert