„Galin“ ummæli seðlabankastjóra

Smári McCarthy, þingmaður Pírata.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fannst mjög sérstakt að heyra Seðlabankastjóra fara að tala um Sundabraut og aðrar vegaframkvæmdir, í stað þess að svara hagfræðilegri spurningu minni um fjárfestingar á vegum ríkisins og mikilvægi þess að auka fjárfestingar nú þegar atvinnuleysi er mikið, hagkerfið í hægagangi, og svo framvegis.

Þetta skrifar Smári McCarthy, þingmaður Pírata, á Facebook eftir að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri kom á opinn fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun.

Þar sagði Ásgeir að honum þætti stórundarlegt og ámælisvert að Sundabraut hafi ekki verið byggð miðað við þá umferð sem er í bænum. Smári segir að þetta hafi verið „eiginlega galið“ hjá seðlabankastjóra.

Smári spyr hvort Ásgeir vilji vinna hjá Vegagerðinni og segir að hann hafi ekki ætlað sér að spyrja um samgöngumál, heldur fjárfestingar almennt hjá ríkinu.

Nú vill þannig til að Ásgeir er ekki sérfræðingur í vegagerð, borgarþróun, umhverfismálum, eða álíka. Hann á að heita sérfræðingur í hagkerfinu, og þegar hann er boðaður á fund Efnahags- og viðskiptanefndar sem slíkur sérfræðingur, og sem Seðlabankastjóri, þá væri best ef hann myndi halda sig við þannig umræðu,“ skrifar Smári.

Þingmaðurinn bætir því við að ekki sé gagnlegt að fjárfesta bara í steypu og samgöngumannvirkjum. 

Þótt það megi nú alveg gera það líka ─ nægur er skorturinn á ýmsum slíkum framkvæmdum, einkum hjólastígum og álíka ─ en hvernig væri að leggja áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þróun, uppbyggingu Landspítalans, Háskóla Íslands, og svo framvegis?


 

mbl.is

Bloggað um fréttina