Verðlaunað fyrir „sigur“ gegn flugfreyjum

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. mbl.is/Arnþór

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði að fyrirhuguð ríkisábyrgð á lánalínu til Icelandair horfði þannig við henni að Icelandair hafi náð að spara sér pening með bolabrögðum á íslenskum vinnumarkaði og sé nú verðlaunað með ríkisábyrgð.

Eins og Þórhildur rifjaði upp í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag sagði Icelandair öllum flugfreyjum sínum upp störfum þegar félagið taldi viðræðurnar komnar í hnút og stefndi á að semja við annað félag. Deilan var þó kláruð við samningaborðið og flugfreyjur endurráðnar. 

Deilur ætti að leysa við samningaborðið

Katrín sagðist vera þeirrar skoðunar að deilur sem þessar ætti að leysa við samningaborðið og það væri gott að þessi deila hefði verið leyst þar. Þórhildur spurði þá hvort það væri ásættanleg aðferð hjá félaginu að ganga fram með þeim hætti sem raun bæri vitni, „er það eitthvað sem á að verðlauna með ríkisstuðningi?“ spurði Þórhildur. 

„Mér finnst mikilvægt að hér sé starfandi íslenskt flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi sem sé á íslenskum vinnumarkaði,“ sagði Katrín og bætti því við að mikilvægt væri að hérlendis væri flugfélag sem gæti hjálpað til við endurreisn ferðaþjónustunnar. Samt verði að gæta að almannahag og almannafé. Félagið ljúki sjálft sinni fjárhagslegu endurskipulagningu, safni sjálft hlutafé og ríkið sé fyrst og fremst í stuðningshlutverki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert