Launasamningar afturkallaðir

Sigríður Björk tilkynnti um það í júlí að hún ætlaði …
Sigríður Björk tilkynnti um það í júlí að hún ætlaði sér að vinda ofan af samkomulaginu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri hefur afturkallað launasamninga sem forveri hennar í starfi gerði við aðstoðar- og yfirlögregluþjóna fyrir ári. Embættið metur það sem svo að samningarnir hafi ekki verið í samræmi við lög. Yfirlögregluþjónn segir að ákvörðunin sé byggð á öðrum ástæðum en áður var lagt upp með og skoðar hvort hann fari með málið fyrir dóm. 

„Þetta snýst um það að samningur var gerður og samningur skal standa og það voru engar forsendur fyrir því að segja honum upp. Forsendum sem lagt var upp með er búið að henda út í hafsauga og teknar upp aðrar málaástæður,“ segir Óskar Bjartmarz yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is en RÚV greindi fyrst frá ákvörðun ríkislögreglustjóra. 

„Það er bara skipt um hest í miðri á. Hinn …
„Það er bara skipt um hest í miðri á. Hinn virkaði ekki og þá var bara skipt um. Bakkanum hinum megin skal náð, sama með hvaða hætti það verður gert,“ segir Óskar Bjartmarz yfirlögregluþjónn. mbl.is/Árni Sæberg

Lokaniðurstaða

Haraldur Johannessen, þáverandi ríkislögreglustjóri, gerði samkomulagið við lögregluþjóna embættisins skömmu áður en hann lét af störfum í fyrra. Samkomulagið fólst í því að fimmtíu fastar yfirvinnustundir færðust inn í dagvinnulaun. Þannig urðu til mun meiri lífeyrisréttindi en ella og laun lögreglumanna hjá embætti ríkislögreglustjóra hærri en laun flestra lögreglustjóra landsins. Lögreglustjórafélag Íslands gerði athugasemdir við samkomulagið. 

Í svari ríkislögreglustjóra til fréttastofu RÚV segir að launasamsetningu og launaröðun verði breytt með vísan til ákvæða laga, kjarasamnings og stofnanasamnings þannig að lífeyrisréttindi verði í samræmi við gildandi réttarheimildir. Um er að ræða lokaniðurstöðu málsins, að mati embættisins. 

„Skipt um hest í miðri á“

Sam­kvæmt lög­fræðiáliti sem Sig­ríður Björk lét gera hafði Har­ald­ur ekki heim­ild til að gera umræddan samning. Óskar segir að ákvörðun embættisins um að afturkalla launasamninga nú sé byggð á öðrum forsendum.

„Þær eru byggðar á meginreglum vinnuréttar og samningsréttar. Allt sem lagt var upp með frá fjármálaráðuneytinu og í lögfræðiálitinu er ekki lengur til staðar. Það er bara skipt um hest í miðri á. Hinn virkaði ekki og þá var bara skipt um. Bakkanum hinum megin skal náð, sama með hvaða hætti það verður gert,“ segir Óskar. 

Hann ætlar að ráðfæra sig við lögfræðing eftir helgi og skoða stöðu sína en til greina kemur að hann fari í dómsmál vegna þessa. Þá veit hann um tvo aðra sem eru líka að skoða stöðu sína. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert