Sendir yfirlýsingu til Ríkisendurskoðunar vegna SÁÁ

Rótin hefur sent erindi til Ríkisendurskoðunar vegna starfsemi SÁÁ þar sem segir meðal annars að það verði að teljast tíðindi að bróðurpartur starfsmanna í samtökum á borð við SÁÁ sendi frá sér svo afdráttarlausa yfirlýsingu um misbresti í starfi samtakanna sem hafi verið á fjárlögum í áraraðir og þegið milljarða árlega úr ríkissjóði.

Í aðdraganda stjórnarkjörs innan SÁÁ í lok júní birtist yfirlýsing frá 57 af 100 starfsmönnum samtakanna þar sem fram kemur m.a. að vandi SÁÁ snúist um „yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem geta ekki sleppt tökunum á gömlum tímum“ og að „ógnarstjórn“ hafi verið við lýði í rekstri samtakanna.

Augljóst er að í yfirlýsingunni er verið er að vísa í tæplega fjögurra áratuga stjórnartíð Þórarins Tyrfingssonar sem á um 20 ára tímabili var bæði framkvæmdastjóri og formaður stjórnar SÁÁ,“ segir í erindinu.

Við því var að búast að í kjölfar yfirlýsingarinnar færi af stað vinna á vegum ríkisins og/eða að frumkvæði nýrrar forystu SÁÁ við að kanna réttmæti hennar og rannsaka hversu mikinn skaða téð ofbeldi hefur haft á þá sem starfað hafa eða þegið meðferð hjá samtökunum,“ segir enn fremur í erindinu.

Þar segir hins vegar að svo til algjör þögn hafi ríkt um yfirlýsingu starfsmanna SÁÁ og ekki virðist unnið að nauðsynlegu uppgjöri við þetta „yfirgengilega ofbeldi“ og „ógnarstjórn“.

„Það eru miklir hagsmunir fólgnir í réttlæti til handa þeim sem beittir hafa verið ofbeldi innan stofnana ríkisins eða sem studdar eru af ríkinu. Miðað við að hér koma fram afdráttarlausar ásakanir meirihluta starfsfólks samtaka sem ríkið hefur fjármagnað að miklu leyti í áratugi er það ósk Rótarinnar að Ríkisendurskoðun skoði málið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert