Kex opni heimavist fyrir háskólanema

Pétur Marteinsson, eigandi Kex.
Pétur Marteinsson, eigandi Kex. Styrmir Kári

Eigendur Kex hostels skoða nú möguleikann á að opna heimavist fyrir háskólanemendur. Þetta segir Pétur Marteinsson, eigandi Kex, í samtali við mbl.is.

Pétur segir að vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins verði gistiheimilinu Kex hosteli lokað tímabundið 1. september, en skoðað er hvort hægt verði að opna Kex í óhagnaðardrifnu félagi og vera með heimavist í stað gistiheimilis.

„Kex hostel, eins og flestir í ferðaþjónustunni, er að róa ákveðinn lífróður og veturinn verður mjög erfiður,“ segir Pétur. „Við sjáum fram á að hér verði ákaflega fáir ferðamenn og kannski munu engir koma í gistingu hjá okkur, og þá er ómögulegt að halda opnu.“

KEX-hostel opnaði í Skúlagötu í Reykjavík árið 2008 og er …
KEX-hostel opnaði í Skúlagötu í Reykjavík árið 2008 og er í senn hótel, veitinga- og samkomustaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Pétur segir að Kex hafi, líkt og mörg önnur fyrirtæki, þurft að horfa á eftir starfsfólki sem hafi margt unnið þar í langan tíma. Við erum að reyna að slá nokkrar flugur í einu höggi,“ segir Pétur.

Með því að breyta gistiheimilinu í heimavist fyrir nemendur sé hægt að halda Kex opnu og halda starfsfólki, en jafnframt koma til móts við stóran hóp stúdenta sem eru í vandræðum með búsetu.

„Unga fólkið sem er í háskóla hefur farið hvað verst út úr þessari kreppu sem er að byrja. Sumir fengu jafnvel enga sumarvinnu og geta ekki unnið meðfram skóla, en á sama tíma er metaðsókn í skóla.“

Langir biðlistar eru hjá Félagsstofnun stúdenta og þeim sem bjóða upp á úrræði fyrir nemendur.

„Ég held að þetta gæti verið win-win. Þá fáum við líf í húsið og á sama tíma geta stúdentar sem eru ekki með búsetu fyrir veturinn eða í vandræðum leigt saman. Það vonandi myndast góð stemning í Kex-dorminu.“

Flatus lifir

Í júní stofnuðu Pétur og félagar hans í Kex pop-up-barinn og veitingastaðinn Flatus, sem reiðir fram pítsur og bjór á afar lágu verði.

„Við lítum á Flatus sem tilraunaverkefni; að prófa að bjóða upp á hreinlega ódýrar pítsur og ódýran bjór fyrir okkar gesti,“ segir Pétur, sem bætir við að staðurinn sé alveg aðskilinn gistiheimilinu og hægt verði að halda úti rekstri Flatusar og heimavistarinnar á sama tíma.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert