Listamenn tóku yfir gistihús í veirunni

Centric guesthouse varð Sticky Artments, sem sé listaíbúðir á vegum …
Centric guesthouse varð Sticky Artments, sem sé listaíbúðir á vegum Sticky, sem er útgáfufyrirtæki á vegum Priksins. Ljósmynd/Aðsend

Ferðaþjónusta á Íslandi er í molum, ekki síst eftir nýlegar ákvarðanir stjórnvalda um sóttkví fyrir alla. Hótel standa auð og þau sem eru heppin hálfbókuð. Hótelbyggingar eru þó jafnmargar fyrir því og þá þarf að útvega þeim nýtt hlutverk. Það hafa Priksmenn gert með Centric guesthouse við Lækjargötu.

Í því sem áður var 15 herbergja gistihús á besta stað er nú vinnuaðstaða listamanna á öllum aldri, þar sem hver leigir eigið rými á sanngjörnu listamannsverði. „Herbergin eru eins misstór og þau eru mörg og sá sem borgar minnst er að borga eitthvað um 40-50 þúsund,“ segir Geoffrey-Huntingdon Williams, rekstrarstjóri og meðeigandi Priksins.

Geoffrey og Finni á Prikinu, Guðfinnur Sölvi Karlsson, tóku við rekstri hótelsins þegar það lagði upp laupana í heimsfaraldrinum. Í stað þess að leigja herbergin út til búsetu, eins og sums staðar er gert, ákváðu þeir að gera þetta að listamannahúsnæði undir merkjum útgáfufyrirtækisins Sticky.

Meganæs

Á meðal listamannanna er Björg Magnúsdóttir, sem er vissulega fjölmiðlamaður að upplagi en hefur að nokkru leyti villst út á braut lista undanfarið í handritaskrifum fyrir sjónvarp. Þjóðin sér afrakstur þess í haust í Ráðherranum á RÚV og í Systraböndum í Sjónvarpi Símans. Svo er hún að vinna að nýju verkefni núna, um sinn að sjálfsögðu háleynilegu, en það gerir hún á skrifstofu sinni á gamla gistiheimilinu.

Björg Magnúsdóttir, rithöfundur og fjölmiðlamaður.
Björg Magnúsdóttir, rithöfundur og fjölmiðlamaður. Eggert Jóhannesson

„Meganæs, myndi ég segja,“ segir Björg í samtali við mbl.is.

Björg segist hafa verið komin með ógeð af því að vera kaffihúsanna á milli að skrifa. „Það sem er svo frábært við þetta hér er að þú færð að vera í samfélagi og strúktúr, þó að þú sért sjálfstætt starfandi. Eftir að hafa verið heima á náttfötunum að skrifa í þessari veiru er ég farin að líta svo á að fólk sem segist geta unnið skrifstofustörf heima hjá sér sé bara að ljúga. Maður er alltaf eitthvað að taka til í kryddhillunni einhvern veginn,“ segir Björg. 

Breyttur vinnumarkaður

Þegar Björg kom að skoða nýju skrifstofuna sína var hún enn þá herbergi með rúmi, borði og spegli. Sem sé hótelherbergi. „Hönnun þannig herbergja er í raun og veru mjög fín í eitthvað svona líka. Ég þarf bara frið og ró og svo að geta læst herberginu mínu þegar ég fer. Ég er þess vegna að mæla með þessu bara fyrir fullt af fólki sem ég veit að er í svipaðri stöðu og ég,“ segir hún.

Svipuð staða og hún er í er sem sagt þessi verkefnabundni lífsstíll, þar sem fólk er síður að binda sig í fasta vinnu hjá sömu fyrirtækjum í 60 ár, en skiptir lífinu frekar niður í tímabil. „Mér finnst vinnumarkaðurinn vera að breytast að þessu leyti en það sem breytist ekki er að fólk þarf strúktúr í daginn sinn.“

Til marks um þörf hinna sjálfstætt starfandi til að deila einhvers konar rými með öðrum á vettvangi dagsins eru opnu vinnurýmin sem hafa skotið upp kollinum á síðustu árum, þar sem hver er með sitt skrifborð í stórum sal. Feit pæling sem gengur ekki upp, að mati Bjargar: „Þetta mun hafa varanleg áhrif á geðheilsu fólks. Þetta er æðisleg pæling en í praxís er gríðarleg truflun sem fylgir þessu, þú getur ekkert unnið með einhverja fjölmiðlamenn að labba fram hjá skrifborðinu þínu allan daginn.“

mbl.is