„Þurfum að sjá hverju þetta skilar“

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segist fagna því að úrskurður gerðardóms í viðræðum félagsins við fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs liggi fyrir eftir eins og hálfs árs kjaraviðræður. Hún segir að í ljós eigi eftir að koma hverju niðurstaðan eigi eftir að skila til hjúkrunarfræðinga. 

Gerðardómurinn úrskurðaði í dag að ríkið skuli leggja Landspítalanum til aukna fjármuni sem skuli ráðstafað til að bæta kjör hjúkrunarfræðinga á grundvelli stofnanasamnings, alls 900 milljónir króna á ári frá 1. september 2020 til loka gildistíma kjarasamnings aðila. 

Þá skal ríkið á sama hátt leggja öðrum heilbrigðisstofnunum sínum sem hafa almenna hjúkrunarfræðinga í þjónustu sinni til aukna fjármuni sem skal ráðstafað á grundvelli stofnanasamninga, alls 200 milljónir króna á ári frá 1. september 2020 til loka gildistíma kjarasamnings aðila. 

Guðbjörg segir að í ljós komi hverju niðurstaða gerðardóms eigi eftir að skila þegar stofnanasamningar verða endurnýjaðir. 

„Ég fagna því að þessi úrskurður sé kominn eftir eins og hálfs árs kjarabaráttu og síðan bið eftir úrskurði gerðardóms. Þetta er 1,1 milljarður sem er reiknað með sem viðbótarframlagi til heilbrigðisstofnana en frekari framkvæmd er ekki í gerðardómnum svo nú þurfum við að setjast niður með heilbrigðisstofnunum og þetta framlag verður notað til að endurnýja stofnanasamninga. Það verður þá fyrst sem við sjáum hvernig þetta kemur út fyrir hjúkrunarfræðinga, hverju í rauninni þetta mun skila. Nú bara leggjumst við yfir þetta og ég á ekki von á öðru en að nú hefjist gott samstarf við allar heilbrigðisstofnanir í að útfæra þessa stofnanasamninga,“ segir Guðbjörg. 

Ánægjulegt en jafnframt sorglegt 

Ágreiningur samningsaðila snerist um hvort laun hjúkrunarfræðinga hjá stofnunum ríkisins séu í samræmi við ábyrgð, álag, menntun og inntak starfa þeirra samanborið við aðrar háskólamenntaðar stéttir hjá ríkinu. Í úrskurði gerðardóms segir meðal annars að það séu að mati gerðardóms „vísbendingar um að hjúkrunarfræðingar séu vanmetin kvennastétt hvað varðar laun með tilliti til ábyrgðar“.

Guðbjörg segir ánægjulegt að fá viðurkenningu á þessu, en á sama tíma sé sorglegt að vera í þeirri stöðu yfirhöfuð. 

„Það er mjög gott að sjá þetta og þau styðja það í þessari greinargerð að þau telji vera vísbendingar um að hjúkrunarfræðingar sé vanmetin kvennastétt hvað varðar laun með tilliti til ábyrgðar í starfi. Það er alveg rétt eins og við höfum alltaf haldið fram. Að sjálfsögðu var ég ánægð að sjá þetta, þó að það sé náttúrlega sorgleg niðurstaða, að við skulum standa í þeim sporum árið 2020, á ári hjúkrunarfræðinga. Það er mjög sérstakt. En það er jákvætt að sjá þessa viðurkenningu,“ segir Guðbjörg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert