Efling lagði fram önnur samningsdrög

„Við teljum að í fyrsta lagi sé það alveg óviðunandi …
„Við teljum að í fyrsta lagi sé það alveg óviðunandi að fólk sé án fullgilds kjarasamnings eins og hefur verið allt of lengi hjá þessum hópi. Við teljum að það eigi að bæta úr því, það er lágmarkskrafa á íslenskum vinnumarkaði að fólk vinni undir samningum,“ segir Viðar. mbl.is/Hari

Stéttarfélagið Efling lagði fram önnur drög að kjarasamningi fyrir Samtök sjálfstæðra skóla (SSSK) í lok fundar deiluaðila í dag, að sögn Viðars Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Eflingar. Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður SSSK, segir útlit fyrir að deiluaðilar séu komnir langleiðina í viðræðum sínum. 

Drögin eru svipuð þeim samningsdrögum sem Efling lagði fram 15. maí síðastliðinn og er grundvallarkrafa Eflingar að starfsfólk sjálfstæðra skóla njóti svipaðra kjara og starfsfólk skóla Reykjavíkurborgar.

„Við teljum að í fyrsta lagi sé það alveg óviðunandi að fólk sé án fullgilds kjarasamnings eins og hefur verið allt of lengi hjá þessum hópi. Við teljum að það eigi að bæta úr því, það er lágmarkskrafa á íslenskum vinnumarkaði að fólk vinni undir samningum,“ segir Viðar í samtali við mbl.is.

SSSK eru sammála Eflingu um það að kjör starfsfólks sjálfstæðra …
SSSK eru sammála Eflingu um það að kjör starfsfólks sjálfstæðra skóla eigi að vera svipuð og starfsfólks annarra skóla, að sögn Söru.

Samkvæmt samningum og yfirlýsingum frá SSSK sem mbl.is hefur undir höndum gerði Efling upphaflega samning við SSSK sem gilti frá 1. október 2005 og síðan annan samning sem gilti frá 1. nóvember 2008. Eftir það tóku við yfirlýsingar frá SSSK til Eflingar um kaup og kjör starfsmanna. Fyrst yfirlýsing sem gilti frá 1. júní 2011 og næst frá 1. maí 2015.

„Einhliða yfirlýsing er að sjálfsögðu ekki ígildi samnings. Samningur er plagg sem tveir aðilar undirrita. Það er okkar krafa í fyrsta lagi að kjör séu fest í raunverulega tvíhliða samkomulagi og í öðru lagi að kjörin séu sömu og hjá þeim sem vinna sambærileg störf hjá Reykjavíkurborg,“ segir Viðar.

Sara segir alveg rétt að ekki hafi verið gerðir sérstakir kjarasamningar við starfsfólk sjálfstæðra skóla síðastliðin ár. 

„Það hefur falið í sér er að starfsfólk sjálfstæðra skóla hefur ekki haft þennan skýra verkfallsrétt, það er eitt af því sem maður skilur að þurfi að laga. En að öðru leyti hafa starfsmenn leikskólanna notið góðs að fullu af þeim samningum sem hafa verið gerðir við sveitarfélögin og rekstur leikskólanna byggir á því. Öðruvísi gengi ekki upp að ráða starfsfólk.“

Nýtt ákvæði um ágreining

SSSK eru sammála Eflingu um það að kjör starfsfólks sjálfstæðra skóla eigi að vera svipuð og starfsfólks annarra skóla, að sögn Söru. Hún segir að það sé á vakt stéttarfélagsins að halda utan um kjarasamninga, ekki SSSK. Samtökin hafi lengi lýst yfir vilja til að ganga til eiginlegra kjarasamninga. Ákvörðun um að taka upp tilvísunarsamninga var tekin af stjórn Eflingar sem er ekki lengur við stjórnvölinn, að sögn Viðars. 

Samningsdrögin eru í meginatriðum svipuð þeim samningsdrögum sem Efling lagði fram um miðjan maí. Helsta breytingin er nýtt ákvæði sem kveður á um að ef einhver álitamál komi upp um túlkun samningsins, hvernig eigi að heimfæra ýmis ákvæði úr samningnum við Reykjavíkurborg yfir á einkarekna skóla og starfsmenn þeirra, þá verði það leyst í samstarfsnefnd.

„Við höfum góða reynslu af því í okkar samskiptum við opinberu aðilana og líka við samningsaðila sem eru reknir fyrir almannafé í gegnum þjónustusamninga, við erum með svona samstarfsnefnd gagnvart Reykjavíkurborg og almennt höfum við bara góða reynslu af því,“ segir Viðar.

Sara segir fínt samtal í gangi og að SSSK sjái fyrir endann á viðræðunum. „Það eru ákveðnir þættir sem við viljum skoða til hlítar þegar á annað borð er verið að gera heildstæðan kjarasamning við okkur. Við höfum sagt það alveg skýrt að við þurfum að taka alla þætti samninganna til athugunar. Við getum ekki gengið að samningi við sveitarfélög eins og hann kemur af kúnni. Það er svo sem alveg skilningur fyrir því. Við erum bara að rekja okkur í gegnum það og draga fram það sem skiptir máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert