„Þetta er bara alveg næsta stig“

„Þetta er bara alveg næsta stig,“ sagði Brynjar Karl Birgisson, sem er þekktastur fyrir að hafa smíðað legóútgáfu af Titanic, um það að taka á móti forsetanum á frumsýningu How the Titanic became my lifeboat, nýrrar myndar um legóævintýrið hans og hvernig hann tekst á við einhverfu. 

Sex ár eru síðan ég hitti Brynjar Karl fyrst þar sem hann var að leggja drög að því að smíða rúmlega sex metra langa legó-útgáfu af skipinu sögufræga. Síðan þá hefur margt gerst. Skipið var flutt í Smáralindina tæpu ári seinna í taugatrekkjandi flutningum og þaðan hefur það ferðast um heiminn ásamt Brynjari.

Sjálfur hefur hann ferðast víða um heim til að flytja fyrirlestra og fræða fólk um einhverfu og hvernig hægt sé að horfa á hana sem styrkleika. Bjarney Lúðvíksdóttir, móðir Brynjars, er kvikmyndagerðarkona og það var því aldrei önnur útkoma í spilunum en að ævintýrinu yrðu gerð skil í kvikmynd. Hún er nú að komast í dreifingu og að sögn Bjarneyjar vilja þau beina kröftum sínum í að reyna að auðvelda fólki á einhverfurófinu að komast inn á vinnumarkaðinn.

Í myndskeiðinu er rætt við mæðginin og fylgst með þegar Brynjar Karl tekur á móti Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, í dag en honum bregður fyrir í myndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert