Leita til ríkisins vegna samgangna til Eyja

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, segir að leitað verði til ríkisins …
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, segir að leitað verði til ríkisins vegna flugsamgangna til Vestmannaeyja, sem nú eru af skornum skammti. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við munum óska eftir samtali við ríkið vegna þessara frétta – við viljum að áætlunarflug sé hingað til Eyja,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar.

Flugfélagið Ernir tilkynnti í gær að hætt verði áætlunarflugi til Vestmannaeyja, frá 4. september til ótilgreinds tíma, vegna fækkunar farþega í kjölfar faraldursins.

„Það er flogið á markaðsforsendum til Eyja, þar sem þetta er ekki ríkisstyrkt flug, en við tökum því virkilega alvarlega að Ernir skuli vera að hætta áætlunarflugi til Vestmannaeyja,“ segir Íris. 

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Aðsend

Sennilegt tap af þjóðhátíð

Spurð segir Íris að hún reikni með eitthvað af tekjutapi Herjólfs ohf. og Ernis komi til vegna þess að þjóðhátíð hafi ekki verið haldin.

„Gríðarlegur fjöldi fólks kemur til Vestmannaeyja á þjóðhátíð og það varð auðvitað tekjutap vegna þess hjá þessum aðilum eins og öðrum þegar þjóðhátíðinni er aflýst,“ segir Íris.

Þrátt fyrir að Herjólfur ohf. hafi nýlega sagt öllum starfsmönnum upp mun ferjan áfram halda ferðáætlun, af því er segir í tilkynningu frá Herjólfi ohf. Því fari víðsfjarri að félagið muni hætta rekstri en allir starfsmenn sem sagt var upp vinna nú á þriggja mánaða uppsagnarfresti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert