200 manna hámarksfjöldi og eins metra regla fyrir alla

Þórólfur á upplýsingafundinum í dag.
Þórólfur á upplýsingafundinum í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lagt til við heilbrigðisráðherra breytingar á sóttvarnatakmörkunum innanlands. Þórólfur leggur til að samkomutakmörk verði færð úr 100 í 200 manna hámarksfjölda. Þá leggur hann til að eins metra reglan eigi við alla í stað tveggja metra reglunnar. 

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag. Þórólfur leggur til að nýjar reglur taki gildi 7. september og verði endurskoðaðar að tveimur til þremur vikum liðnum. 

Á meðal annarra tillaga Þórólfs eru að skemmti- og veitingastaðir fái áfram að hafa opið til klukkan 23 á kvöldin, að fjöldatakmarkanir í sundlaugum færist úr 50% getufjölda í 75% og að íþróttaviðburðir verði áfram leyfðir með 200 manna sótthólfum. 

Fram kom í máli Þórólfs að frá 15. júní hefðu um 220 einstaklingar greinst með veiruna. Fimm hafa þurft á spítalavist að halda en engin er nú inniliggjandi. Flestir þeirra sem greinst hafa voru í sóttkví við greiningu. 

Fjöldi þeirra sem greinast með virkt smit á landamærum fer heldur vaxandi að sögn Þórólfs, þrátt fyrir að færri ferðamenn komi hingað. Endurspeglar það að hans mati ef til vill útbreiðslu faraldursins erlendis.

Alls hafa um 100 greinst með virkt smit á landamærum. Þar af eru 16 einstaklingar sem fengu neikvæða niðurstöðu úr fyrri sýnatöku en greindust jákvæðir í síðari sýnatöku. Um 60% þeirra sem greinast á landamærum hafa lögheimili hérlendis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert