Krefst þess að Arnfríður víki sæti

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður krefst þess að Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari víki sæti í tveimur málum sem bíða meðferðar í Landsrétti og hann fer með fyrir hönd skjólstæðinga sinna.

Lögmaðurinn telur Arnfríði vanhæfa til að dæma í málunum vegna persónulegrar afstöðu í hans garð, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag. Málflutningur um kröfu Vilhjálms fer fram í Landsrétti 28. september. 

Þar segir að að um sé ræða mál Oddnýjar Arnarsdóttur og Hildar Lilliendahl sem dæmdar voru í héraði til að greiða tveimur skjólstæðingum Vilhjálms bætur vegna ummæla sem þær létu falla um þá haustið 2015 í svokölluðu Hlíðamáli.

Vísað er til Landsréttarmálsins í kröfu Vilhjálms, en hann er lögmaður Guðmundar Andra Ástráðssonar, stefnanda málsins.

Í kröfu Vilhjálms til Landsréttar segir meðal annars: „Afstaða Arnfríðar til mín persónulega vegna þessara lögmannsstarfa minna í þágu umbjóðanda míns, Guðmundar Andra Ástráðssonar, er að mínu mati ekkert leyndarmál enda hefur hún ekki farið leynt með þá skoðun sína og viðrað hana víða. Það sama á við um eiginmann Arnfríðar, Brynjar Níelsson.“

mbl.is