Tífalt fleiri smit greind hlutfallslega

Frá landamæraskimun í Leifsstöð.
Frá landamæraskimun í Leifsstöð. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Fjöldi greindra smita kórónuveiru á landamærum hefur tífaldast hlutfallslega síðan reglur um tvöfalda skimun með fimm daga sóttkví á milli tóku gildi 19. ágúst síðastliðinn.

Áður voru greind smit 0,04% af öllum sýnum sem tekin höfðu verið á landamærunum en eftir 19. ágúst hefur hlutfallið aukist og er nú 0,3% eða tæplega tífalt meira. Hafa ber í huga að mun færri sýni eru tekin við landamærin nú en áður enda ferðast færri hingað til lands eftir að hertar reglur tóku gildi. 

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag. „Ég hef áhyggjur af því að ef þessi þróun heldur áfram og við slökum verulega á skimunum þá munum við fá fleiri smit hérna inn. Mér sýnist gögnin okkar sýna það óyggjandi,“ sagði Þórólfur þar. 

„Eins og að fara yfir stórfljót“

Aðspurður sagði Þórólfur að það væri „óvarlegt“ að segja til um það hvenær væri hægt að slaka á aðgerðum á landamærum. Eins og mbl.is hefur áður greint frá ætlar Þórólfur að leggja til tilslakanir á aðgerðum innanlands við heilbrigðisráðherra. 

„[Það er] ekki ráðlegt að slaka á á hvorum tveggja vígstöðvum, bæði innanlands og á landamærunum, samtímis. Ef maður á að velja á milli held ég að það sé skynsamlegra að byrja á því að slaka á hér innanlands, síðan verðum við bara að feta okkur áfram. Þetta er bara eins og að fara yfir stórfljót, við verðum að fara rólega og sjá hvert hvert skref leiðir okkur í raun og veru,“ sagði Þórólfur. 

Lítið smit vegna aðgerða

Hann sagði þó að ef stjórnvöld tækju ákvörðun um að slaka á aðgerðum á landamærunum hefði það ekki endilega áhrif á aðgerðir innanlands. Samt sem áður væru auknar líkur á því að smit breiddist út hérlendis ef slakað yrði á aðgerðum á landamærum. 

Spurður út í gagnrýni þeirra sem telja aðgerðirnar umfram tilefni, enda smit ekki jafn útbreidd hérlendis og víða annars staðar, sagði Þórólfur:

„Við erum með lítið smit og lítið vandamál hér út af þessum aðgerðum sem við höfum verið að grípa til. Það er ástæðan.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert