Samþykktu ríkisábyrgð Icelandair Group

Þingstubbnum svokallaða lauk með samþykkt frumvarpa sem tengjast ríkisábyrgð Icelandair.
Þingstubbnum svokallaða lauk með samþykkt frumvarpa sem tengjast ríkisábyrgð Icelandair. mbl.is/Eggert

Ríkisábyrgð á lánalínum til Icelandair hefur verið samþykkt á Alþingi og er þingstubbnum svokallaða lokið.

Breytingar voru gerðar á fjáraukalögum og lögum um ríkisábyrgðir, sem fól í sér heimild fyrir ráðherra til að veita Icelandair Group hf. sjálfskuldarábyrgð frá ríkissjóði á lánum vegna tekjufalls fyrirtækisins í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. 

Hámarki samfélagslegan ávinning

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að mikilvægt væri að velja þá leið sem lágmarki áhættu ríkissjóðs og hámarki samfélagslegan ávinning. „Ég tel að þetta mál þjóni þessum markmiðum,” sagði hún.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að ekki væri sjálfsagt að þingið gæti afgreitt slíkt mál á eins stuttum tíma og raun ber vitni, og væri það merki um styrk Alþingis að svo hafi verið gert, þrátt fyrir að andstæð sjónarmið ríki á þinginu.

Vildi fleiri skilyrði

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að þingflokkur Samfylkingarinnar hefði viljað skoða fleiri leiðir, en fyrst þessi var valin hafi hann viljað sjá fleiri skilyrði.

„Ríkari veð, ákvæði gegn bónusum og ofurlaunum, farið sé að íslenskum vinnurétti, og mörkuð verði loftslagsstefna fyrirtækisins.”  

Án samráðs við stjórnarandstöðuna

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði ríkisábyrgðina vanbúna og vanhugsaða. Ríkisstjórnin hafi undirbúið þetta mál án samráðs við stjórnarandstöðuna eða aðra í samfélaginu. 

Píratar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Á þingfundi sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, að ríkisábyrgðin væri „klassískt dæmi í að einkavæða gróðann en ríkisvæða tapið”.  Frumvarpið sé fjárhættuspil með fé almennings og vinni á móti heilbrigðri samkeppni á flugmarkaði.  

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði fráleitt að ríkisábyrgðin sé til Icelandair Group, en ekki flugfélagsins Icelandair. Það sé flugfélagið sem sé kerfislega mikilvægt, en ekki jeppaferðir eða hótelbókanir annarra dótturfélaga Icelandair Group. Flokkur fólksins studdi ekki frumvarpið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert