Segir dapurlegt að fylgjast með heimsókn Róberts

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ljósmynd/Rósa Braga

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi forstjóri Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE, segir dapurlegt að fylgjast með heimsókn Róberts Spanó, forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, til Tyrklands.

Í ferðinni þáði Róbert heiðursdoktorsnafnbót við háskólann í Istanbúl og hitti Erdogan Tyrklandsforseta.

„Hann ætti að vita það manna best að það vantar mikið upp á að mannréttindi séu virt og farið sé að reglum réttarríkisins í Tyrklandi,“ skrifar Ingibjörg Sólrún á Facebook.

„Þó að fjögur ár séu nú liðin frá valdaránstilrauninni 15 júlí 2016 er ennþá verið að ásaka embættismenn, dómara, fræðimenn, blaðamenn, kvenfrelsiskonur, mannréttindafrömuði o.fl. um að vera handbendi hryðjuverkasamtaka - oftar en ekki vegna þess eins að þau lýsa yfir skoðun sem gengur gegn stefnu AKP flokksins,“ bætir hún við.

Róbert Spanó.
Róbert Spanó. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ingibjörg kveðst hafa búið í Tyrklandi þegar valdaránstilraunin var gerð og segir fulla ástæðu til að taka tilraunina alvarlega og sækja þá til saka sem stóðu að henni.

„Það er hins vegar með öllu óverjandi að nota hana sem afsökun fyrir því að ásækja alla þá sem bjóða pólitískum rétttrúnaði AKP flokksins byrginn og útmála þá sem hryðjuverkamenn. Ég neitaði að taka þátt í því hjá ODIHR og tyrkneskum stjórnvöldum fannst ég eiga að gjalda fyrir það með stöðumissi. Það er í takt við annað.“

Hún segir að inn á við í Tyrklandi virki heimsókn Róberts eins og hvítþvottur. „Róbert Spanó segir að það sé hefð fyrir því að forseti Mannréttindadómstólsins þiggi heiðursdoktorsnafnbót en mér er til efs að það sé hefð fyrir að þiggja hana í ríki þar sem staða mannréttinda er með þessum hætti og hið akademíska frelsi jafn bágborið og það er í Tyrklandi,“ segir hún og bætir síðar við:

„Mér er nær að halda að það hafi verið fordild en ekki hefð sem réði því að Róbert Spanó þáði þessa vegtyllu.“

Ekki hefur náðst í Róbert Spanó vegna heimsóknarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert