Segir Jón Ívar „snúa hlutum á hvolf“

Kári Stefánsson.
Kári Stefánsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, tókust á um aðgerðir við landamæri Íslands í Silfrinu í dag. 

Í grein sinni í Morgunblaðinu í síðustu viku sagði Jón Ívar að hann teldi aðgerðir við landamærin ekki í samræmi við þá stöðu sem við erum í nú. Hann vildi að heimkomusmitgát yrði tekin upp í stað sóttkvíar. Kári svaraði Jóni á föstudag og sagði stórhættulegt að skipta úr sóttkví yfir í heimkomusmitgát vegna þess að engin leið væri að átta sig á hvort henni væri framfylgt. 

Jón Ívar sagði í Silfrinu í dag að dánartíðni af völdum veirunnar væri lægri en upphaflega var talið. Aftur á móti væru afleiddar afleiðingar aðgerða vegna veirunnar miklar, bæði heilsufarslegar og efnahagslegar. Hann segir mikilvægt að þeir sem taki ákvarðanir horfi á heildarmyndina. 

Kári Stefánsson og Jón Ívar Einarsson tókust á í Silfrinu …
Kári Stefánsson og Jón Ívar Einarsson tókust á í Silfrinu í dag. Skjáskot/RÚV

Jóni finnst aðgerðir innanlands eiga að vera svipaðar og þær eru núna og að í stað sóttkvíar á milli skimana eftir komuna til landsins eigi að taka upp heimkomusmitgát að nýju. Það gæti skapað aukinn hvata fyrir ferðamenn sem hingað vilja koma en á sama tíma sé hægt að hafa íslenskt samfélag í tiltölulega eðlilegu horfi með einhverjum takmörkunum. Mikilvægt sé að halda smitstuðli undir einum með aðgerðum innanlands en á sama tíma leyfa ferðamönnum að koma inn í landið. 

„Óskynsamlegt“

„Hann snýr alls konar hlutum á hvolf þessi ágæti maður,“ sagði Kári þá og bætti við að hann væri sammála því að mikilvægt væri að gæta hófs í öllum aðgerðum. Ljóst væri að þær aðgerðir sem nú væru í gildi við landamærin hefðu skilað ótvíræðum árangri en Kári telur óskynsamlegt að skipta út sóttkví fyrir heimkomusmitgát.  

Kári segist vera þess fullviss að bæði hann og Jón vilji að íbúar hér á landi geti lifað eðlilegu lífi eftir því sem kostur er. 

Jón segir óraunhæft að halda að lífið verði algjörlega eðlilegt fyrr en það tekst að þróa bóluefni og stór hluti þjóðarinnar verður bólusettur. Þangað til þurfum við að sigla í ákveðnu meðalhófi. 

Kári segir ástæðuna fyrir því að það séu ekki miklar hömlur á okkar daglega lífi að hér hafi verið tiltölulega harðar aðgerðir á landamærum. Með því að gera aðstæður á landamærum þannig að það sé erfitt að koma sýktur inn í landið séum við að minnka líkurnar á að það komi upp sýking innanlands. Kári segir það æskilegt að hér geti ferðamenn komið í miklum mæli, en að við þurfum raunverulega að velja milli þess að fá hingað fjölda ferðamanna eða setja stóran hluta landsmanna í sóttkví.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert