„Erfitt tímabil fram að jólum“

„Við erum að horfa fram á erfitt tímabil fram að jólum og að líkindum eitthvað lengur. Ég tel að búast megi við því að það verði einhverjar uppsagnir og ekki endurráðningar næstu tvenn mánaðamót,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Stór hluti skaðans hafi þó orðið strax og sóttkvíarreglur tóku gildi. 

Jóhannes segir að borið hafi á því að flugfélög og ferðaþjónustufyrirtæki, sem selt hafa Ísland sem áfangastað, beri ekki fullt traust til stöðugleika í ákvörðunum íslenskra stjórnvalda í dag og muni því hugsa sig tvisvar um áður en þau hefja starfsemi hér á landi á ný. 

Líklegt að fyrirtæki muni halda að sér höndum

„Ferðamannastraumurinn byrjar ekki eins og skrúfað sé frá krana þegar reglum á landamærunum er breytt. Flugfélögin eru hætt að fljúga að stórum hluta og þau munu hugsa sig tvisvar um, nú þegar ekki eru skýr viðmið,“ segir hann.

Fjölmörgum var sagt upp og hafa þeir unnið á uppsagnarfresti síðan hertar reglur um sóttkví við komu til landsins tóku gildi. Jóhannes segir að búast megi við því að hluti þeirra starfsmanna verði ekki endurráðinn, líkt og áður mátti búast við. 

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, telur að margt starfsfólk …
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, telur að margt starfsfólk muni ekki eiga kost á endurráðningu, í ljósi áhrifa faraldursins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það eru einhver fyrirtæki sem reyna að hafa opið inn í þessa mánuði en ég myndi telja að mikill minnihluti þurfi ekki að gera breytingar á starfsmannahaldi hjá sér,“ segir hann.

Veitingastaðir í miðbæ Reykjavíkur sleppi betur við rekstrarörðugleika í ljósi tilslakana á samkomureglum en gististaðir eigi við erfiðari aðstæður að etja.

mbl.is