Húsnæðið verður endurnýjað fyrir lögregluna

Húsnæði fangelsisins á Akureyri verður endurnýjað og breytt til að bæta vaxandi húsnæðisþörf lögreglunnar eftir að því verður lokað 15. september næstkomandi. Fangelsismálastofnun mun hafa fjárhagslega burði til að reka stærri fangelsi landsins með lokun fangelsisins á Akureyri. 

Greint var frá því í dag að fangelsinu á Akureyri verði lokað í næstu viku, en lokunin átti að fara fram um mánaðamót júlí og ágúst en var síðan frestað á meðan mat ríkislögreglustjóra á hugsanlegum viðbótarkostnaði fyrir lögregluna á Norðurlandi eystra fór fram.  

Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu segir að embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra verði nú styrkt um fjórar stöður lögreglumanna til að sinna almennri löggæslu í umdæminu. Þá verður húsnæði fangelsisins endurnýjað til að mæta vaxandi húsnæðisþörf lögreglunnar. Þá verða nú tveir sérsveitarmenn með fasta búsetu á Akureyri í stað eins og tryggt verður að lögreglan á Norðurlandi eystra geti nýtt sér úrræði til gæsluvarðhaldsvistar á staðnum þegar þörf krefur. 

Geta rekið stærri fangelsin á hagkvæmari hátt 

Fram kemur í tilkynningu ráðuneytisins að ákvörðunin sé tekin að tillögu Fangelsismálastofnunar. „Tilgangur fyrirhugaðrar lokunar fangelsisins á Akureyri var annars vegar að auka hagkvæmni í rekstri fangelsiskerfisins í heild ásamt því að stytta boðunarlista eftir fangelsisvist í landinu,“ segir í tilkynningunni. 

Þá segir að vegna ýmissa þátta hafi mikilvægi fangelsisins á Akureyri minnkað verulega á síðustu árum. Föngum í stærri fangelsum standi til bjóða meiri þjónusta sálfræðinga og fjölbreyttara náms- og vinnuframboð. 

Lögreglustöðin Akureyri.
Lögreglustöðin Akureyri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Í dag eiga allir fangar möguleika á framgangi í afplánun og geta því ekki og eiga ekki lögum samkvæmt að afplána stærstan hluta refsingar sinnar í lokuðu fangelsi en Akureyri er lokað fangelsi. Rekin eru tvö opin fangelsi þannig að unnt að er taka tillit til stöðu fanga við val á opnu fangelsi fyrir viðkomandi eftir afplánun í lokuðu fangelsi. Opnu fangelsin eru á Suðurlandi og Vesturlandi. Þá er áfangaheimili sem tekur við að lokinni vist í opnu fangelsi staðsett í Reykjavík. Það er því útilokað að fangar afpláni allan sinn tíma á Norðurlandi eystra,“ segir í tilkynningunni. 

„Í stað 10-14 manna eininga áður eru í dag rekin tvö öflug lokuð fangelsi sem samtals gætu vistað um 140 fanga ef Fangelsismálastofnun hefði fjárhagslega burði til að reka þau á fullum afköstum. Það verður stofnuninni unnt að gera með lokun fangelsisins á Akureyri. Fangelsismálastofnun telur sig geta rekið hin stærri fangelsin á hagkvæmari hátt og fullnustað fleiri fangelsisrefsingar með markvissari hætti þar sem öryggissjónarmiðum er fullnægt og boðið upp á fjölþætta faglega þjónustu fyrir hvern og einn fanga.“

mbl.is