„Mikill léttir eftir fréttir kvöldsins“

Höfuðstöðvar Krabbameinsfélagsins.
Höfuðstöðvar Krabbameinsfélagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Kynningarstjóri Krabbameinsfélagsins segir að starfsfólki félagsins sé létt, nú þegar ljóst er að enginn efi sé um hæfi félagsins til þess að framkvæma skimanir. Starfsfólk hafi verið slegið vegna atburða síðustu daga en að samstaða sé innan hópsins.

Hún segir samráð félagsins við Sjúkratryggingar Íslands gott, en forstjóri SÍ greindi frá því í dag að hún kannaðist ekki við að hafa séð gögn sem stutt gætu efasemdir um hæfi Krabbameinsfélagsins til að sinna skimunum.

Eins og áður hefur verið greint frá urðu mistök í greiningu sýna hjá Krabbameinsfélaginu árið 2018 sem leiddu til þess að kona, sem nú er með ólæknandi krabbamein, greindist ekki með frumubreytingar þegar hún fór í leghálsskimun hjá leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Lögmaður konunnar hefur fengið fleiri sambærileg mál inn á sitt borð. 

„Krabbameinsfélagið hefur átt gott samráð við Sjúkratryggingar í dag um málið,“ segir Sigríður Sólan Guðlaugsdóttir, kynningarstjóri Krabbameinsfélags Íslands, í svari við fyrirspurnum mbl.is.

Samstaða starfsfólks mikil

„Starfsfólk félagsins er mjög slegið yfir atvikinu sem varð og hefur verið undir miklu álagi vegna ávirðinga. Mikil samstaða er innan hópsins og mikill léttir eftir fréttir kvöldsins að félagið valdi ekki lengur efa um hæfi félagsins til að framkvæma skimanir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert