Segir leiðinlegt að horfa á eftir samstarfsfólki

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir leiðinlegt að horfa á eftir samstarfsfólki sínu í fangelsinu á Akureyri. Hann segir þó þá breytingu sem verður 15. september þegar fangelsinu verður lokað í takt við þróun fangelsismálakerfisins. 

Greint var frá því í dag að fang­els­inu á Ak­ur­eyri verði lokað í næstu viku, en lok­un­in átti að fara fram um mánaða­mót júlí og ág­úst en var síðan frestað á meðan mat rík­is­lög­reglu­stjóra á hugs­an­leg­um viðbót­ar­kostnaði fyr­ir lög­regl­una á Norður­landi eystra fór fram.  

Páll segir að enginn fangi hafi verið í fangelsinu á Akureyri frá 15. maí og þar hafi aðeins verið lágmarksstarfsemi. „Það er auðvitað leiðinlegt að sjá á eftir góðu samstarfsfólki á fangelsinu á Akureyri sem hefur skilað góðu starfi. En fullnustukerfið þarf að halda áfram að þróast og þessi breyting er í fullu samræmi við það,“ segir Páll í samtali við mbl.is, en ákvörðun dómsmálaráðherra um að loka fangelsinu var gerð að tillögu Fangelsismálastofnunar. 

„Það sem við getum gert núna þegar þessi hagræðing hefur náð fram að ganga er að við getum rekið tvö stór fangelsi á fullnægjandi afköstum, bæði fangelsið á Hólmsheiði og Litla-Hraun,“ segir Páll. 

Geta veitt betri þjónustu 

Páll segir margar ástæður fyrir breytingunni. 

„Fangelsið á Akureyri hefur gegnt mjög mikilvægu hlutverki á síðustu árum þegar fangelsin voru mjög lítil eða án möguleika á aðskilnaði, auk þess sem fangar fyrr á tímum afplánuðu langstærstan hluta refsingar sinnar í lokuðu fangelsi. Þetta er hins vegar ekki staðan í dag og rökin fyrir lokun þessa fangelsis eru fyrir það fyrsta að búið er að byggja stórt lokað fangelsi sem býður upp á fullkominn aðskilnað,“ segir Páll. 

„Síðan eru stóru fangelsin með mun hærra öryggisstig, í stórum fangelsum eru betri möguleikar á að bjóða upp á fjölbreytt nám og vinnu og eftir því sem fangelsin eru færri og stærri þeim mun betri þjónustu geta sálfræðingar, félagsráðgjafar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn veitt föngum,“ segir Páll. 

Hann segir að auk þess sé ekki lengur mögulegt fyrir fanga að afplána alla refsingu sína á Akureyri. 

„Í dag eiga fangar ekki að afplána stærstan hluta refsingar sinnar í lokuðu fangelsi. Þar sem opnu fangelsin og áfangaheimilin eru á Suðurlandi, Vesturlandi og í Reykjavík eiga fangar ekki þess kost að afplána allan sinn tíma á Akureyri. Það er bara ekki möguleiki. Síðan eru stóru fangelsin bara hagkvæmari einingar og fangelsið á Akureyri var langminnsta rekstrareiningin, næstminnsta fangelsið var rúmlega tvisvar sinnum stærra,“ segir Páll.

mbl.is