Aldrei varað við verðtryggðum lánum

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hagsmunasamtök heimilanna segja áhyggjur opinberra aðila á óverðtryggðum lánum athyglisverðar þar sem aldrei hafi þótt ástæða til að vara við verðtryggðum lánum og hækkun þeirra í tak við verðbólgu.

„Nýlega hafa bæði varaseðlabankastjóri og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun talið ástæðu til að vara við því að breytilegir vextir óverðtryggðra lána geti hækkað. Rétt eins og það sé ekki augljóst hvað orðið „breytilegir” þýðir eða neytendur geri sér ekki grein fyrir því að slíkar breytingar geti orðið bæði til hækkunar og lækkunar.

Þessar áhyggjur opinberra aðila eru athyglisverðar því aldrei hefur opinber stofnun varað neytendur við því að verðtryggð lán og afborganir þeirra hækki alltaf í takt við verðbólgu hvort sem hún er lítil eða mikil og aldrei nokkurn tímann hefur opinber stofnun varað við því að snörp hækkun verðbólgu geti svipt lántakendur verðtryggðra lána öllu eigin fé í húsnæði sínu með óafturkræfum hætti, líkt og gerðist í bankahruninu.

Það er einnig athyglisvert að þrátt fyrir þessar áhyggjur af neytendum hafa sömu opinberu aðilar látið það algjörlega átölulaust að lækkun stýrivaxta skili sér ekki að fullu til lántakenda. Þeir hafa t.d. á undanförnum mánuðum ekkert skipt sér af því að vextir íbúðalána hjá bönkunum hafi lækkað um aðeins 42% þó að stýrivextir Seðlabanka Íslands hafi lækkað um 78%. Hér er um að ræða vaxtamun og upphæðir sem íslensk heimili munar verulega um bæði til lengri og skemmri tíma.

Það er full ástæða til að benda þessum aðilum á að neytendur eiga þessa miklu vaxtalækkun inni hjá bönkunum og ef hún myndi skila sér að fullu, ættu óverðtryggðir vextir íbúðalána að vera 1,33% og allar áhyggjur því ástæðulausar.

Hvað varðar verðtryggð lán þá er verðbólga nú 3,2%, þannig að ef verðtryggðir vextir endurspegluðu sama raunvaxtastig og þeir óverðtryggðu ættu vextir verðtryggðra íbúðalána að vera komnir niður í um 0,3%, en eru þrátt fyrir það 2,0% eða hærri hjá bönkunum.

Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að vaxtalækkanir undanfarinna missera skili sér til neytenda áður en hugsanlegar stýrivaxtahækkanir fara að hafa einhver áhrif á lán neytenda,“ segir í tilkynningu frá Hagsmunasamtökum heimilanna.

mbl.is