Rangar niðurstöður hjá 52 konum

Tveggja vikna bið er nú eftir leghálsskimun.
Tveggja vikna bið er nú eftir leghálsskimun. mbl.is/Árni Sæberg

Krabbameinsfélagið hefur farið yfir rétt rúmlega 2.200 sýni af þeim sex þúsund sýnum sem ákveðið var að taka til endurskoðunar eftir að upp komst um vankanta á skoðun sýna hjá félaginu.

Af þessum rúmlega 2.200 sýnum hafa frumubreytingar greinst í 52 sýnum, og þau því vitlaust greind í upphafi. Í öllum tilvikum er um að ræða vægar breytingar og ekkert krabbamein hefur greinst. Hafa konurnar sem um ræðir allar verið kallaðar til annarrar sýnatöku. 

Þetta segir Sigríður Sólan Guðlaugsdóttir, upplýsingafulltrúi félagsins, í samtali við mbl.is.

Tveggja og fjögurra vikna bið

Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag er mikið álag á leitarstöðina þar sem margar konur vilja bóka tíma.

Tveggja vikna bið er nú eftir leghálsskimun hjá félaginu og fjórar vikur eftir brjóstaskimun.

„Þegar leitarstöðin er til umfjöllunar þá hrökkva konur gjarnan við og muna eftir því að panta sér tíma. Það er kannski jákvæði punkturinn í þessu öllu saman,“ segir Sigríður og bætir við að mikilvægt sé að sýna biðlund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert