Rúmlega níu hundruð konur greinst frá 1964

27 þúsund leghálssýni eru sögð skoðuð hjá frumurannsóknarstofu leitarstöðvarinnar á …
27 þúsund leghálssýni eru sögð skoðuð hjá frumurannsóknarstofu leitarstöðvarinnar á hverju ári. mbl.is/Árni Sæberg

Rúmlega níu hundruð konur á Íslandi hafa greinst með leghálskrabbamein frá árinu 1964, þegar skipuleg leit að meininu hófst hjá Krabbameinsfélaginu. Þar af hafa tæplega þrjú hundruð látist en rúmlega sex hundruð hlotið bata.

Þetta er fullyrt í nýrri færslu á vef félagsins. Segir þar að á ári hverju séu 27 þúsund leghálssýni skoðuð hjá frumurannsóknarstofu leitarstöðvarinnar.

Um 14 þúsund konur komi á stöðina, en auk þess taki sjálfstætt starfandi kvensjúkdómalæknar og ljósmæður á heilsugæslum leghálssýni sem send séu þangað til rannsókna.

„Á rannsóknarstofunni starfar sérhæft starfsfólk og nýtt starfsfólk þarf um það bil ár í þjálfun til að öðlast nægilega færni til að geta leitað að afbrigðilegum frumum,“ segir í færslunni.

Sérhæfingin finnist ekki annars staðar

Haft er eftir Ingibjörgu Guðmundsdóttur, yfirlækni frumurannsóknarstofunnar, að þessi sérhæfing finnist ekki annars staðar á landinu.

„Sérhæfð þekking skiptir gífurlega miklu máli og er þessi þekking á Íslandi bundin við rannsóknarstofu Krabbameinsfélagsins. Hún finnst ekki annars staðar hér á landi. Sérhæfingin skiptir því miklu máli fyrir konur á landinu,“ er haft eftir Ingibjörgu.

Einnig er haft eftir Ágústi Inga Ágústssyni, yfirlækni leitarstöðvarinnar, að á stöðinni starfi fólk sem sé hugað um að varðveita heilsu kvenna á landinu.

„Að baki leitarstarfinu liggur hugsjón, gríðarlegur metnaður og framsýni þeirra sem komu skimunum á fót á Íslandi. Þetta hefur verið leiðarljós leitarstöðvarinnar allt fram á þennan dag. Á leitarstöðinni starfar fólk sem brennur fyrir því að varðveita heilsu og heill kvenna á Íslandi og árangurinn af þessu er óumdeilanlegur og með því besta sem þekkist í heiminum,“ er haft eftir Ágústi Inga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert