Breytir litlu fyrir Eyjaflugið

Hörður Guðmundsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins Ernis.
Hörður Guðmundsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins Ernis. mbl.is/Eggert

„Ég vona sannarlega að þetta komi til með að nýtast fólki á landsbyggðinni. Það sem býr að baki þessu úrræði er að fleiri muni fljúga en það er enn þá óljóst hvernig það verður,“ segir Hörður Guðmundsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins Ernis, um hina nýju Loftbrú sem kynnt var til sögunnar í dag.

Flugfélagið Ernir flaug á föstudaginn í liðinni viku síðustu áætlunarferð sína til Vestmannaeyja. Fyrirtækið bar því við að flugið hafi ekki borið sig og því hafi verið sjálfhætt. Hörður segir aðspurður að tilkoma Loftbrúarinnar breyti litlu um forsendur þess flugs.

„Eyjaflugið stendur ekki undir sér, ekki frekar en strætisvagnaakstur eða ferjusiglingar. Það er erfitt að ætla sér að haldi úti almenningssamgöngum án þess að það komi til niðurgreiðslur eða lækkun gjalda hins opinbera af einhverju tagi,“ segir Hörður Guðmundsson.

Hann segir að í sumar hafi félagið boðið upp á 50% afslátt af öllum fargjöldum til að reyna að glæða viðskiptin. „Það má segja að við höfum að einhverju leyti verið að reka skosku leiðina án þessarar aðstoðar,“ segir Hörður og bætir við að eins hafi verkalýðsfélögum boðist að kaupa miða fyrir félagsmenn sína í stærri upplögum gegn góðum afslætti. 

Hann kveðst telja að útspil þurfi frá stjórnvöldum til að flug til Vestmannaeyja gangi upp. Áður en Landeyjahöfn var vígð hafi flug Flugfélags Íslands til Eyja verið greitt niður. Því hafi verið hætt með þeim rökum að ríkið myndi ekki greiða niður tvenns konar samgöngur á sama stað. Þau rök haldi þó ekki því í dag sé til að mynda niðurgreitt flug til Hafnar í Hornafirði og strætóferðir á sama stað. 

„Eftir að nýi báturinn kom hefur farþegum fækkað. Flugið til Eyja er ekki nálægt því að standa undir sér en við hverja ferð nær hið opinbera tekjum sínum inn þótt það séu bara 2-3 farþegar um borð,“ segir Hörður sem kveðst hafa reiknað út að af hverjum einasta miða sem félagið selur fær ríkið 8.389 krónur í skatta og gjöld. Þá er ótalinn ýmis launakostnaður. 

„Þetta er miður. Það þurfa allir á góðum samgöngum að halda en það er ekki á færi einkafyrirtækis að halda þeim úti þegar þær borga sig engan veginn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert